Fara í efni

MANNRÉTTINDADÓMSTÓLINN TÖKUM VIÐ ALVARLEGA

DV
DV

Birtist í DV 18.07.12
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að tvær blaðakonur hefðu verið ranglega dæmdar á Íslandi fyrir að miðla ummælum frá viðmælendum og að fyrir vikið væri íslenska ríkið skaðabótaskylt.

Niðurstöður Mannréttindadómstólsins hljótum við að taka alvarlega.  Það höfum við gert áður, til dæmis hvað varðar kröfur um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds.

Bókstafurinn og andinn


Ljóst er  að endurskoða  þarf löggjöf sem snýr að tjáningarfrelsinu. Það verk er reyndar vel á veg komið. Hvað tjáningarfrelsið varðar var stórt skref stigið með nýjum fjölmiðlalögum. Dómsmálin tvö sem hér um ræðir voru til lykta leidd á grundvelli ákvæða í eldri lögum sem nú hafa verið felld úr gildi. Ný fjölmiðlalög hafa breytt stöðu mála og eins og ráða má af greinargerðinni sem fylgdi  frumvarpinu til fjölmiðlalaga, höfðu mál blaðakvennanna tveggja áhrif á að reglur um ábyrgð á miðlun efnis í gegnum fjölmiðla var skýrð. Meiðyrðalöggjöfin er nú til endurskoðunar og er mikilvægt að sú vinna taki mið af niðurstöðum Mannréttindadómstólsins.

Það er þó ekki nóg að regluverkið sé í lagi. Beiting þess og túlkun skiptir engu minna máli.
Þetta snýr að því sem kallað hefur verið „andi laganna." Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins hafa íslenskir dómstólar túlkað lögin of þröngt og mættu þeir að hans mati vera rýmri í andanum ef svo má að orði komast. Þetta er nokkuð sem dómstólar okkar og réttarkerfið mun án efa  taka til athugunar enda hlýtur réttarkerfið eins og þjóðfélagið allt að vera í stöðugu endurmati  í ljósi þeirra viðhorfa sem við viljum helst leggja rækt við.

Lagaumhverfi  og allt regluverk  verður að taka mið af mikilvægi tjáningarfrelsisins. Það er okkar stjórnmálamannanna að sjá um þá hlið.  Sjálfum finnst mér miklu máli skipta að túlka lög sem snúa að tjáningarfrelsi rúmt. Virðing fyrir tjáningarfrelsinu er grundvallaratriði  og mikilvæg forsenda lýðræðisins. Einmitt á þessa leið segir í niðurstöðum Mannréttindadómstólsins. Hann athugaði málin í ljósi þess að ekki megi hefta mikilvæga þjóðfélagsumræðu nema mjög sterk rök mæli með því. Dómstóllinn taldi slík rök ekki hafa komið fram í umræddum málum.

Skyldur fjölmiðla

En á þessu er síðan hlið sem fjölmiðlarnir hljóta að taka til skoðunar og umræðu, og hún snýr að fjölmiðlunum sjálfum. Ef það er nú svo að fjölmiðill er í vari þótt hann hafi eftir viðmælanda umdeilanleg ummæli  í brennandi þjóðfélagsmáli, þá hljótum við að reisa strangar kröfur til þessarra sömu fjölmiðla um vönduð og sanngjörn vinnubrögð. Við verðum að geta treyst því til hins ítrasta að alltaf sé satt og rétt greint frá, viðmælendurnir séu raunverulegir og ummæli þeirra aldrei færð í stílinn.

Ekki er ég að gera því skóna að íslenskir fjölmiðlar séu ekki almennt vandir að virðingu sinni hvað sannsögli og heiðarleika varðar. Ég er einfaldlega að benda á að réttindum fylgja skyldur. Varðhundar lýðræðisins, eins og mannréttindadómstóllinn hefur vísað til fjölmiðla, verða auðveldlega varghundar lýðræðisins ef þeir sinna hlutverki sínu ekki af kostgæfni og ábyrgð.

Fjölmiðlar greiði götu gagnrýnnar umræðu

Í hitamálum í samfélaginu þurfa fjölmiðlar að kappkosta að gæta meðalhófs um leið og þeir sinna lýðræðislegu aðhaldi.  Í einhverjum tilvikum getur verið áskorun að finna jafnvægi þarna á milli, en það er mikilvægt fyrir okkur öll að fjölmiðlum farnist vel á þeirri slá.  Á flestum málum eru tvær hliðar, stundum fleiri, þótt vissulega megi til sanns vegar færa að sá sem beitir annan einstakling  ofbeldi, ráðskast með hann nauðugan og misnotar, eigi sér takmarkaða málsvörn. Það er einmitt í málum af þessu tagi sem erfiðast er að fá fólk til að koma fram undir nafni. Þannig er það eðli máls samkvæmt.

Þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlarnir geti greitt götu gagnrýninnar umræðu án þess að þurfa að óttast  refsivönd réttarkerfins. Þess vegna leyfi ég mér að fagna þessum nýju niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Vegvísir til framtíðar

Mannréttindadómstóllinn hefur margoft sýnt að hann er traustsins verður. Fyrir mitt leyti er ég  mjög sáttur við að hann verði okkur vegvísir inn í framtíðina í mannréttindamálum. Á því sviði fer nú fram mjög markviss vinna á vegum innaríkisráðuneytisins sem fer með mannréttindamál innan stjórnarráðsins. Sá málaflokkur teygir sig að sönnu inn fyrir dyr flestra ráðuneyta, enda er mikil samvinna þvert á ráðuneyti í málaflokknum. Þessi vinna er þegar farin að skila árangri og með haustinu mun enn frekari afrakstur birtast bæði hvað varðar stefnumótun og einnig framkvæmd.