Fara í efni

MÁLÞING VG OG FIRRING MORGUNBLAÐSINS


Í Staksteinum Morgunblaðsins er fjallað um þá „hættu" að ný ríkisstjórn sé líkleg til að beita sér fyrir skatthækkunum. Ekki telur Moggi það til vinsælda fallið. En ég spyr: Hjá hverjum?

Hinir efnuðu eða hinir snauðu?

Hjá þeim sem misst hafa vinnu sína og sjá fram á að Atvinnuleysistryggingasjóður mun tæmast ef fer fram sem horfir? Hjá þeim sem niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu mun bitna á? Skyldi þetta fólk telja það vera mál málanna að verja þá sem hafa atvinnu og miklar tekjur í þokkabót, verði verndaðir fyrir því að greiða ögn meira til að hægt verði að taka á afleiðingum atvinnuleysisins? Eða sjúklingar sem niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni kemur niður á?

Moggi úti á þekju?

Er Morgunblaðið ekki enn búið að átta sig á því að þjóðfélagið stendur á barmi gjaldþrots? Við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum: Annars vegar gætum við fórnað velferðarsamfélaginu og haldið inn í þjóðfélag súpueldhúsanna. Hins vegar gætum við einbeitt okkur að því að varðveita öryggisnet velferðarþjónustunnar. Ef sú leið er valin eigum við ekki annarra kosta völ en jafna kjörin. Það gerum í tekjukerfunum (les: þeir hæstu lækka, þeir lægstu hækka) og síðan með tilfæringum í skatta og millifærslukerfum.

Horfum til fyrimynda sem reynst hafa vel

Á  mjög fróðlegu málþingi VG í dag bar Stefán Ólafsson, prófessor, saman tvær fyrrgreindar aðferðir við að reka þjóðfélag. Annars vegar það sem hann kallaði „engilsaxnesku leiðina", með litlum sköttum og litlum millifærslum og hins vegar „skandinavísku leiðina" með umtalsverðum millifærslum í skattakerfi.
Stefán sagði að engilsaxneska hagfræðimódelinu - sem mest hefði verið praktiserað í Bandaríkjunum - hefði verið að leyft að blómstra í aldarfjórðung. Niðurstaðan blasti nú við okkur í hruni og kreppu. Skandinavíska módelið hefði hins vegar sannað sig í kröftugum samfélögum. Þangað eigum við að sækja fyrirmyndir okkar klykkti Stefán út í fyrirlestri sínum.
En hvar vill Morgunblaðið leita fyrirmynda? Hvernig vill (vilja) Staksteinar leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir? Með því að jafna kjörin eða treysta á gjaldþrotahagfræði þeirra Reagans, Thatchers og Davíðs?

Valdið þarf að gangrýna -alltaf!

Margrét Pétursdóttir
baráttukona úr Hafnarfirði, flutti umhugsunarverða ræðu þar sem fram komu sjónarmið sem eru mér mjög að skapi. Hún varaði við því að agnúast út í ný framboð. Þvert á móti ættum við að fagna því að lýðræðið fengi að blómstra. „Nú er tíminn til að móta og skapa." Allir ættu að láta í ljós sinn vilja. Ef við lokuðum ákvarðanir inni í valdastofnunum myndi lýðræðið aldrei fá að njóta sín. „Höldum áfram að pönkast í öllu yfirvaldi, líka því sem okkur líkar vel."  Rétt Margrét!

Þegar blindir fengu sýn

Sigryggur Magnason, rithöfundur sagði að við hrunið í haust hefðu talsmenn frjálshyggjunnar haft lítið að segja annað en Guð blessi Ísland!. Mér fannst hann lýsa skemmtilega þeirri vakningu sem síðan hefði orðið: Blindir hefðu fengið sýn, heyrnarlausir heyrn og mállausir málið. Sigtryggur fjallaði um þöggunarsamfélagið sem þar sem barninu sem komið hefði auga á nekt keisarans væri ráðlagt að þegja: „Annars gæti mamma þin misst vinnuna."

Gleymskan er varasöm

Oddný Eir Ævarsdóttir var með erindi sem hún kallaði „Um frumspeki lýðræðisins." Nú þyrfti að hugsa upp á nýtt því það væri kominn „kyrkingur" í vöxtinn. Hún fjallaði meðal annars um samspil fortíðar, „arfsins" og hins nýja. Þetta hefði valdið sér heilabrotum þegar sú krafa hefði komið fram að allt gamla kerfið með manni og mús  - líka gagnrýnendur frjálshyggjunnar - yrði látið víkja fyrir nýju fólki nýjum tímum. Með öðrum orðum, að ekki ætti bara að henda „ruslinu" heldur öllu hinu nýtilega líka. Að mati Oddnýjar væru í þessu fólgnar miklar hættur, meira að segja væri hætt við að framhald yrði á „kyrkingnum" ef rof yrði milli fortíðar og samtímans: „Fasisminn byggir einmitt á gleymskunni."
Ég tek undir með Oddnýju. Þessar hugsanir hafa sótt mjög á mig: Hvort  skipta eigi öllu og öllum út - endurnýja herinn að öllu leyti?

Sammála Oddnýju

Niðurstaða mín er í anda Oddnýjar. Ekki svo að skilja að nýtt fólk þurfi ekki að koma til sögunnar. Heldur betur! En það þýðir ekki að brenna eigi allar brýrnar að baki okkur. Það var gaman að hlusta á Oddnýju. Það sem mér þótt sérstaklega skemmtilegt við fyrirlestur hennar var viðfangsefnið í bland við efnistök, nokkuð sem ég hef saknað um langt skeið: Rökræður og vangaveltur um grunninn að hugmyndum okkar og leiðir til að virkja frjóa og lýðræðislega umræðu.