Fara í efni

MÁLSVARAR RANGLÆTIS?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 31.07.15.
Fyrir tveimur árum skrifaði ég tvær greinar í DV um mál sem nú eru á nýjan leik mjög í umræðunni. Önnur greinin fjallaði um almenna skatta og sértæka og bar hún yfirskriftina, Hvað gera Heimdellingar nú? Hin greinin fjallaði einnig um skatta undir heitinu, Það er gott að birta skattskrárnar. Efni beggja þessara greina á sér samnefnara, nefnilega varðstöðu Sjálfstæðisflokksins um hagsmuni efnafólks.
Í fyrrnefndri grein spáði ég því að ungir Sjálfstæðismenn ættu ekki eftir að gagnrýna gjaldtöku á ferðamannastöðum fremur en gjaldtöku á sjúkrahúsum. Þeir vildu nefnilega að „neytandinn" borgaði fyrir veitta þjónustu beint upp úr eigin vasa en sæju hins vegar öll tormerki á að við borgum sameiginlega fyrir slíka þjónustu fyrir milligöngu ríkissjóðs.

Tveggja ára spádómur

Niðurlag þessarar blaðagreinar var eftirfarandi: Hvað gerir fólkið sem tímir ekki að greiða skatt í rekstur Landspítalans þegar innheimtuhliðin verða opnuð á Þingvöllum? Það er ekki að undra að ríkisstjórnin aflétti nú í gríð og erg sköttum af stórútgerðinni og ferðaþjónustunni - hún ætlar að láta okkur borga skattinn beint. En það samræmist að sjálfsögðu hugmyndafræði peningafrjálshyggjunnar að hver og einn borgi fyrir sína eigin neyslu  - ekki neyslu annarra. Hinn heilbrigði borgi ekki fyrir hinn sjúka og milljónerinn greiði ekki aðgang að Geysi fyrir þann sem litlar tekjur hefur í gegnum ríkissjóð. Allir borgi beint  upp úr misbólgnum buddum sínum. Þannig að ég spái því að Heimdallur þegi."

Vilja hlífa hinum efnameiri

Þetta hefur gengið eftir eins og hér var spáð. Ungir Sjálfstæðismenn hafa þagað þunnu hljóði vegna áforma um skattlagningu á unnendur náttúrunnar, finnst það reyndar frábært að seilst sé ofan í vasa þeirra ef það gæti orðið til að hlífa sérstökum skjólstæðingum Sjálfstæðisflokksins, hinum efnameiri í samfélaginu. Réttllátt? Það held ég að okkur finnist fæstum.
Þessi sama umhyggja fyrir hinum efnameiri birtist okkur jafnan í ágústmánuði þegar DV og Frjáls verslun birta okkur efni úr skattskrám. Við það tekur hugsjónafólk Sjálfstæðisflokksins jafnan flugið. Ágústmánuður í ár er þar engin undantekning.

Þykir vænt um ágústmánuð!

Ég hef það á tilfinningunni að eldheitum Sjálfstæðismönnum þyki vænt um þennan árstíma. Pólitískt starf  þeirra fær þá inntak og tilgang. Hugsjónir loga. Í ágústmánuði mótmæla þeir af tilfinningahita, vísa í baráttu  "skattadags" þar sem "skattaklukkur" tifa, að ógleymdri baráttunni um skattskrána. Baráttufólkið telur það vera skýlaust  brot á helgum mannréttindum að sýna undir kennitölum kjaramisréttið í landinu. Þingkona boðar frumvarp á Alþingi þar sem settar verði lagalegar skorður við því að skattstjóri birti skattskrárnar svo fjölmiðlarnir geti ekki lengur haft milligöngu um að koma upplýsingum á framfæri við almenning í landinu.

Vilja hefna sín á öryrkjum!

Og fyrst upplýst skal um tekjuháa skattgreiðendur, af hverju þá ekki um  almannatryggingabætur öryrkja, spyrja hin hörðustu. Finnst það reyndar sjálfsagt mál enda öryrkjar þiggendur en skattgreiðendur veitendur samkvæmt þessum kokkabókum. Þannig leggur frjálshyggjan þetta upp. Ef upplýsa á um oftekjufólkið þá skal hefndin tekin út á öryrkjum. 


Hví tifar skattaklukkan ekki á krabbameinsdeildinni?

Reyndar fer minna fyrir skattaklukkunum nú en oft áður og get ég mér þess til að það sé vegna þess að þeim fer fjölgandi sem átta sig á tvískinnungnum sem fólginn er í því að berjast gegn almennum tekjutengdum sköttum en láta óátalið að krabbameinssjúklingur borgi tvö hundruð þúsund á ári í meðferð í heilbrigðisþjónustunni. Þetta þýðir á mannamáli að barist er gegn því að heilbrigt og vinnufært fólk greiði sameiginlega fyrir heilbrigðisþjónustu en blessum lögð yfir álögur á þann sem er orðin óvinnufær vegna vanheilsu. Auðvitað eru þetta einskonar skattálögur líka. Ranglátar álögur. Fróðlegt væri ef Sjálfstæðisflokkurinn sýndi okkur tifið í skattaklukkunni á göngudeildum sjúkrahúsanna.

Feimnir Sjálfstæðismenn

Ég hef grun um að margir sómakærir sjálfstæðismenn séu orðnir feimnir vegna ákafa margra flokkssystkina sinna sem hamast mest gegn birtingu skattskrárinnar. Hinir sómakæru sjá sem er að það er fyrst og fremst hátekjufólkið sem andæfir birtingu úr skattskrám og þá væntanlega vegna þess að það veit sem er að tekjumisréttið í þjóðfélaginu speglast í skattskránni. Því svíður þegar ranglætið sem það sjálft þrífst á er opinberað.


Krefst vandaðra vinnubragða

Þau sem hafna leyndinni og vilja hafa allt uppi á borðum benda á hinn bóginn á að í skjóli leyndar þrífist misrétti og ennfremur að við eigum öll rétt á því að vita hvernig verðmætunum í þjóðfélaginu er skipt.
Það er svo aftur önnur saga að á þeirri mynd sem okkur birtist í fjölmiðlum eru ýmsar brotalamir. Iðulega er að finna mistök hjá skattinum, tekjur af fjármagnsbraski koma ekki fram, úttektir úr séreignasparnaði lífeyrissjóða gefa ranga mynd af föstum tekjum og fleira mætti telja. Þetta eru þó undantekningar. En þær ber að taka alvarlega og hvílir fyrir bragðið rík skylda á fjölmiðlum að leiðrétta rangfærslur ef fram koma.
Um leið og fjölmiðlum er þakkaðar upplýsingarnar þarf að hvetja þá til að vanda vel til verka.