Fara í efni

MALBIKUNARVÉLARNAR Í EFSTALEITI OG Á AUSTURVELLI

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01/02.09.18.
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég blaðagrein með vangaveltum um framtíð svæðisins umhverfis byggingu Ríkisútvarpsins í Efstaleiti í Reykjavík. Útvarpið hafði fyrir löngu fengið þetta svæði til ráðstöfunar og var upphaflega gert ráð fyrir þremur byggingum. Ein þeirra átti að vera fyrir sjónvarpsstarfsemi, önnur fyrir útvarp og gott ef ein átti ekki að vera fyrir aðskiljanlega menningarstarfsemi. Þetta byggi ég á eigin minni en á þessum tíma sat ég í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins sem formaður Starfsmannafélags Sjónvarps.

Síðan líður tíminn, tæknin, sem áður hafði gerst sífellt frekari til rúmsins, tók nú þveröfuga stefnu og gerðist minni umfangs auk þess sem efni var í ríkari mæli, eftir því sem tímar liðu, framleitt utan veggja stofnunarinnar. Niðurstaðan varð sú að ein bygging var látin duga fyrir alla starfsemi Ríkisútvarpsins.

En hvað sem þessari sagnfræði líður þá var mín hugmynd sú, viðruð í fyrrnefndri blaðagrein, að á Efstaleitisreitnum yrði eins konar klasi með atvinnustarfsemi sem tengdist útvarpi og sjónvarpi, svo sem kvikmyndastúdió, hljóðver, hugsanlega einhverjir angar lista- og leiklistarnáms með tilheyrandi kaffihúsum og annarri afþreyingu. Og síðan má ekki gleyma því að Borgarleikhúsið er ekki langt undan. Þetta þótti mér ríma bærilega við þá hugsun að dreifa atvinnustarfsemi sem víðast í eins konar kjörnum í borginni.

Eflaust hefur þetta ekki verið frumleg hugsun, allavega voru arkitektar og ýmsir verseraðir í skipulagsfræðum vel með á nótunum þegar ég ræddi þetta við þá, engu líkara en þeir hefðu hugleitt þennan kost vel og rækilega og væru honum alls ekki fráhverfir.

En smám saman fór mér að skiljast að þessar vangaveltur voru út í hött því allt önnur sjónarmið réðu nú orðið þróun skipulags í borginni. Nú er spurt hvað fáist mikið fyrir landið. Hvað eru verktakarnir tilbúnir að borga? Og síðan er það spurning hversu langt þeirra fingur nái svo inn í skipulagsvinnuna. Spyr sá sem ekki veit en vill vita.

Allavega voru varla önnur sjónarmið en þessi brasksjónarmið í boði fyrir stjórnendur Ríkisútvarpsins þegar stofnunin var gerð að hlutafélagi árið 2007 með langan óuppgerðan skuldahala og fjárveitingarvald múrað fyrir öll skilningarvit. Átti að selja dreifikerfið, átti að selja Útvarpshúsið eða átti að selja afnotaréttinn af lóðum sem stofnunin hafði yfirráð yfir? Síðasta kostinn völdu stjórnendir RÚV. Skrúfa ríkisins var á þumli þeirra þannig að í samráði við húrrahrópandi Reykjavíkurborg var ráðist í lóðasölu og formúlan að sjálfsögðu sú að því meira, þéttara  og hærra sem byggt yrði, þeim mun betra.
Við þessar aðstæður koma aðrir valkostir að sjálfsögðu ekki til álita!
Útvarpshúsið er nú að hverfa að baki Kínamúrum blokkarbygginga og allt svæðið orðið malbikað út í eitt.

En þetta er ekkert einsdæmi, sams konar malbikunarvélar eru að verki á Austurvelli þessa dagana. Og það í orðsins fyllstu merkingu. Það er nefnilega í alvöru byrjað að malbika inn á Austurvöll, inn í sjálft hjarta borgarinnar. Þarna, af öllum stöðum, á að rísa enn eitt hótelið með tilheyrandi malbiki undir rútur og leigubíla og enn meiri umferð.

Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem er þessu hliðhollur. Vel að merkja þá hef ég ekki rætt við fjárfestana. Hef hins vegar lesið andmæli gegn áformum þeirra um að malbika og byggja yfir gamla kirkjugarðinn, sem veit að Aðalstræti.

En ef það er nú svo að Alþingi og Reykjavíkurborg hafa undirgengist vald verktaka og fjárfesta í skipulagsmálum og þá þvert á almannahagsmuni og almannavilja, hefur þá ekki eitthvað farið alvarlega úrskeiðis? Ég hef trú á að þetta hafi ekki alltaf verið svona, eða hvað? Þarf ekki að leiða hið sanna í ljós og reyna síðan að rétta kúrsinn?
Hvernig væri að taka þetta til róttækrar skoðunar?

Mammon við stýrið á malbikunarvél kann ekki góðri lukku að stýra.