Fara í efni

MALBIKUM ÍSLAND - EKKI ALLT!

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11/12.11.17.
Ekki veit ég hvar Air Connect (Flugfélag Íslands) vill hafa flugvelli á Íslandi en hitt veit ég að forsvarsmenn Icelandair (Flugleiða) telja koma til álita að slétta the Sharp-edged lavafield (Hvassahraun)  þannig að Reykjanesið verði nær allt rennislétt og malbikað með tvo alþjóðaflugvelli og tilheyrandi samgöngukerfum á landi.

Nýlega var viðruð hugmynd um að malbika undir alþjóðaflugvöll við Höfn í Hornafirði og ekki ætlar Ölfusið að verða útundan og vill nú fá sinn alþjóðaflugvöll. Svo er að skilja að bæjarstjórnin í Árborg sé að kanna hvort mögulegt sé að steypa sléttlendið norður af Eyrarbakka og Stokkseyri. Þá yrði stutt að fara á Gullfoss og Geysi.

Síðan er okkur sagt að landið muni falla saman ef við ekki fáum Texas vegakerfi á fjórum akreinum með slaufubúnaði. Talsvert af viðbótar malbiki þar. Hægt yrði að gefa vel í undir Eyjafjöllunum og vissulega yrði fljótvirkara að flytja ferðamannaskarana nær náttúrperlunum og inn í heiðanna ró. Það er nefnilega það, heiðanna ró. Það er til nokkurs vinnandi að komast þangað.

Ég þreytist aldrei á að segja að mér finnist vöxtur ferðamennskunnar vera ánægjuefni og geta, ef vel er á haldið, gert Ísland skemmtilegra. Meðal annars kennt okkur að koma auga á hvað við eigum fallegt land og gefandi menningarsjóði. Hvoru tveggja þarf aðeins að koma auga á og leggja síðan rækt við.

Það er reyndar að gerast. Það er stórkostlegt að koma inn á mörg söfnin á Íslandi, veitingastaði marga hverja að sama skapi, og sjá hvernig fólk virkjar þann sköpunarkraft sem það býr yfir. Og þjóðgarðafólkið er að vinna aðdáunarvert starf með hugkvæmni sinni og smekkvísi.

En við þurfum líka að vera pínulítið raunsæ og ekki ætla okkur um of, enda býður viðkvæm náttúra Íslands ekki upp á að við gleypum heiminn allan. Þá er líka ágætt að byrja á því að horfa til þess sem við eigum.

Við eigum til dæmis ágætan alþjóðaflugvöll í Keflavík og erum smám saman að þróa aðra flugvelli okkar til að gera þeim kleift að taka við millilandaflugumferð í ríkari mæli en nú er, á Akureyri og Egilsstöðum. Vestfirðirnir eru erfiðari með öll sín háu og tignarlegu fjöll.

Síðan erum við nýbúin að opna Suðurstrandarveg sem ætlaður var meðal annars  til að tengja Suðurland og þar með Árborgarsvæðið betur við alþjóðaflugið á Reykjanesi. Eða var ekki svo?

Auðvitað er hægt að gera þetta allt öðru vísi. Slétta hverja þúfu og malbika alla móa. Sú hugsun er af sömu rót og að flytja alla Íslendinga á Jótlandsheiðarnar eins og hugmyndir voru um eftir Móðuharðindin í lok átjándu aldar eða þá að gera landið að verstöð eins og síðar var rætt. Með öðrum orðum, horfa bara til buddunnar.

Reyndar er það merkilega að gerast að buddan talar ekki lengur svona til okkar. Það er ferðaiðnaðurinn þegar farinn að segja okkur. Hann segir að við þurfum einmitt að passa móana og mýrarnar að ógleymdri heiðanna ró. Hann er líka byrjaður að mæla gegn því að við malbikum Ísland, alla vega ekki landið allt.

Þegar spurt er hvað það sé við Ísland sem heillar mest þá er svarið líka oftar en ekki: Heiðanna ró og ómalbikuð náttúra.