Fara í efni

MÁL AÐ LINNI

DV
DV

Birtist í DV 08.10.08.
Í þann mund sem samþykkt var á Alþingi lagafrumvarp um yfirtöku ríkisins á tveimur bankastofnunum sem komnar voru í þrot og á góðri leið með að setja þjóðarbúið á hliðina, var dreift á borð þingmanna gömlum  „góðkunningja" þingsins. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu frá fjölmennri sveit Sjálfstæðismanna sem lögð hefur verið fram ár eftir ár og gengur út að finna hvar ríki og sveitarfélög búa yfir verkefnum sem heppilegra væri að einkavæða. Þingmálið er byggt á stefnu  Verslunarráðsins sáluga sem nú heitir Viðskiptaráð.
Í greinargerð þingmálsins, sem kom einsog skrattinn úr sauðaleggnum,  eru rakin fjölmörg dæmi um rekstur sem færa má út á markað auk þess sem bent er á mikilvæga sigra frá liðnum árum: „Fjölmörg fyrirtæki á vegum ríkisins hafa verið einkavædd og má þar m.a. nefna bankastarfsemi ....".  Það er óneitanlega hraustlega að verki staðið að dengja tillögum um einkavæðingu opinberrar starfsemi á borð þingmanna með sérstakri skírskotun til einkavæðingar ríkisbankanna  á sama tíma og reynslan varar okkur við slíku ráðslagi á jafn óvæginn hátt og nú.

Mætum afleiðingunum saman

Í mínum huga hefur það aldrei verið sáluhjálparatriði að ríkið reki bankastarfsemi. Því fer fjarri að ég leggi að jöfnu Landsbankann og Landspítalann. Bankar mega gjarnan vera á markaði en þar eiga þeir að starfa samkvæmt stífum reglum og varnarmúrar reistir í lögum fyrir hönd almennings. Þetta var ekki gert þegar fjármálakerfið var einkavætt í heild sinni á tíunda áratugnum. Ítrekaðar tilraunir til að setja lög sem aðgreina viðskiptabanka og fjárfestingarstarfsemi hafa illu heilli verið slegnar út af borðinu. Þá er það að sannast að í okkar litla hagkerfi varð það ofan á sem varað var við að sömu aðilar sætu beggja vegna borðs, annars vegar eigendur allra stærstu fyrirtækja á markaði og hins vegar þeir sem veittu þessum sama atvinnurekstri lánafyrirgreiðslu í fjármálakerfinu. Alvarlegastar eru síðan gegndarlausar áhættufjárfestingar um allan heim - margföld íslensk landsframleiðsla, allt á lántökum og að verulegu leyti með ríkið, íslenskan almenning að bakhjarli. Við vonum öll að það versta sé yfirstaðið þótt afleiðingar fyrir starfsmenn og þúsundir heimila eigi enn eftir að koma í ljós. Mikilvægt er að þjóðin standi saman til að mæta illum afleiðingum þessa. En nú verður að breyta af leið við stjórn landsmála.

Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn aldrei að læra?

Þetta sjá nú allir. Fyrirgefið, þetta sjá nú flestir. Fyrrnefndur þingmannahópur Sjálfstæðismanna ætlar enn að halda út á markaðstorgið með starfsemi hins opinbera jafnvel þótt nú blasi við hverju mannsbarni hve ótrygg tilveran þar er. Það sem grunnþjónustan þarf á að halda er stöðugleiki og jafnvægi. Upp á það býður fjárfestingarmarkaðurinn ekki. Þetta er lærdómur líðandi stundar. Nei, segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins, áfram, meira. Gerum eins og við gerðum við bankana. Gerum Íbúðalánasjóð að hlutafélagi. Þetta heyrist enn á göngum þingsins!

Ráðamenn verða að hlusta

Nú verðum við að draga rétta lærdóma af reynslunni. Nú þurfa ráðamenn að hlusta á rödd þjóðarinnar. Í umræðu manna á meðal er harmað að hér skuli ekki hafa verið tryggur og traustur ríkisbanki, að Ríkisskip hafi verið aflagt með þeim afleiðingum að strandsiglingar lögðust af við Ísland, að FL group hætti að vera flugfélag og gerðast fjárfestingarfélag, að Glitnir og FL- Group skyldi hleypt inn í Hitaveitu Suðurnesja, að póstþjónustan skyldi undirlögð markaðslögmálum og að byrjað skyldi að þröngva heilbrigðisþjónustunni og orkugeiranum í markaðsvæðingu. Á ekkert að læra að reynslunni? Er ekki rétt að hlusta á rödd þjóðarinnar?

Ögmundur Jónasson alþingismaður.