Fara í efni

Magnús Stefánson og sendiráðsbruðlið

Að sjálfsögðu las ég grein Magnúsar Stefánssonar alþingismanns í Morgunblaðinu í morgun en hann gerir  mér þann heiður að setja nafn mitt í fyrirsögn hennar. Við nánari skoðun reyndist fyrirsögnin vera ofrausn hjá Magnúsi því í greininni kom ég nánast ekkert  við sögu heldur var vitnað í flokksfélaga mína og það á harla undarlegan máta. Greinin mun eiga að vera viðbrögð við gagnrýni minni á fjáraustur ríkisstjórnarinnar í sendiráð en sem kunnugt er fór kostnaður við sendiráðið í Japan langleiðna í milljarð. Nú vill Magnús Stefánsson gera mig, helst persónulega ábyrgan fyrir þessu bruðli og þykir það hin versta ósvinna að ég skuli yfirleitt vilja nokkuð upp á dekk í umræðu um sendiráð. Magnús segir að Hjörleifur Guttormsson hafi á sínum tíma hvatt til þess að sendiráð yrði opnað í Tokyo. Ekki keypti hann þó húsið og ekki hélt hann utan um bókhaldið, eða hvað? Magnúsi Stefánssyni finnst ómaklegt að gera utanríkisráðherrann ábyrgan fyrir þessum  kostnaði. En mér er spurn, er þetta ekki á hans ábyrgð? Hefur hann ekki einmitt tekið að sér það  hlutverk sem ráðherra? Og fyrst Magnús Stefánsson er farinn að býsnast, þá mætti spyrja hversu stórmannlegt það sé af hans hálfu að reyna að gera mann sem fjarstaddur var allan undirbúning, hvað þá  framkvæmd málsins, ábyrgan fyrir því. Þetta reynir hann að gera gagnvart Hjörleifi Guttormssyni. Og varðandi tilvitnun í ummæli Steingríms J. Sigfússonar um sendiráðsbygginguna, þá sá ég ekki betur en Steingrímur væri að finna að óheyrilegum kostnaði við sendiráðið en stæði hins  vegar frammi fyrir gerðum hlut.

Fyrst Magnúsi Stefánssyni er svona umhugað að bendla mitt nafn við málið og helst koma ábyrgðinni yfir á mig hefði hann ekki átt að fletta ummælum mínum upp í þingtíðindum? Þar er víða hægt að bera niður þar sem ég gagnrýndi þennan fjáraustur harðlega og fór mín afstaða ekkert á milli mála. Um þetta þegir Magnús Stefánsson þunnu hljóði, enda vakir greinilega ekki fyrir honum að láta menn njóta sannmælis.

En vel á minnst, talandi um utanríkismálin, þá sakna ég þess að sjá engar myndir af árangrinum í Írak á flettiskiltum utanríkisráðherrans. Hann hefur unnið sér margt til frægðar í utanríkisráðherratíð sinni annað en að ausa  fé í sendiráðsbyggingar. Hann hefur haldið miklar veislur fyrir Nató og hnýtt okkur fastar inn í það bandalag. Og síðan hefur hann náttúrlega gert okkur  ábyrg fyrir árásum á fjarlægar þjóðir. Eflaust er hægt að myndskreyta öll þessi afrek. Það eru til ágætis myndir frá Natófundinum í Reykjavík og mikið myndefni berst nú daglega frá Írak. Væri ekki hægt að skjóta þessari hugmynd að einhverri auglýsingastofunni sem sérhæfir sig í Framsókn?

Eflaust gæti Magnús Stefánsson tekið að sér að kanna þetta. Hann hefur gert annað eins fyrir flokk sinn.