Fara í efni

MAGMA KAUPIN: Á SVIG VIÐ VILJA LÖGGJAFANS


Á blaðsíðu 88 í skýrslu nefndar Hjördísar Hákonardóttur um lögmæti Magma-kaupanna á HS Orku er athyglisverð tafla. Þar er spurt annars vegar um þröngar lögformelgar skýringar og er niðurstaðan sú að Magma-kaupin kunni að standast slíka skoðun „ þótt það sé ekki á færi annarra en dómstóla að kveða endanlega upp úr um hvernig beri að líta á staðreyndir í máli sem þessu og hvaða túlkun laganna sé rétt."
Þegar  hins vegar horft sé til þeirra markmiða sem lágu að baki löggjöfinni um erlendar fjárfestingar og þegar ekki er horft einvörðungu á formleg eigna- og hagsmunatengsl heldur til „raunverulegra hagsmuna og tengsla" þá megi ætla að salan sé ólögleg.
Gott og vel. Þar höfum við það. Magma fór á svig við vilja löggjafans en gæti komist upp með undanbrögð í þröngri túlkun á lagabókstafnum og með hliðsjón af formlega skráðum eignatengslum. Með öðrum orðum, formlega séð kunni salan að standast þótt veruleikinn hrópi á allt annað!
Sjálfum finnst mér einhlítt að horfa beri til vilja löggjafans, ekki síst þegar samfélagslegir hagsmunir eru í húfi - þegar samfélagið er í vörn gagnvart ásælni fjármagnsins.
Öllum er ljóst að Magma var að reyna að fara á bak við lögin með því að koma sér fyrir í skrifborðsskúffu innan EES svæðisins. Þetta er óheiðarleiki og þar með hugsanleg lagaleg sylla til að standa á til að losna við þennan óvelkomna gest. Nú er okkur sagt að sennilega sé það ekki fær leið nema að undangengnum úrskurði dómstóls.    
En þetta er bara ein hlið málsins. Nú hefst næsti kapítuli: Að korteggja hvernig undið verður ofan af Magma kaupunum. Við skulum draga andann djúpt og gera það með hagsmuni ríkissjóðs í huga. Magma á ekki að komast upp með neina fjárkúgun. Ásetningur stjórnvalda er skýr frá því í sumar hvað Magma áhrærir og að sami skapi er vilji ríkisstjórnarinnar skýr að sett verði löggjöf sem tryggir almannaeign á orkuauðlindunum og stærstu orkufyrirtækjum landsins.
Síðan þarf að grafast fyrir um hin raunverulegu eigna- og hagsmunatengsl. Þeim þætti hefur enn ekki verið sinnt. Það gengur ekki.
Hér er skýrslan: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/utgefidefni/Skyrsla_um_HS-Orku-17092010.pdf