Fara í efni

MÆTTI NÚBÓ EIGA?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11.11.12.
Það sem var rétt í gær er ekki endilega rétt í dag. Í gær þótti rétt að fela einkafyrirtæki í eigu bankanna að annast rafræn auðkenni og vildu sumir að það fyrirtæki tæki jafnvel að sér öll rafræn auðkenni á vegum hins opinbera, alla vega drjúgan hluta. Þegar talað er um auðkenni er um að ræða eins konar lykla sem við fáum í hendur til að öðlast aðgang að kerfum eða persónubundnum upplýsingum um okkur sjálf. Þess vegna þurfum við að auðkenna okkur á öruggan hátt. 
Auðkenning með veflykli ríkisskattstjóra hefur mest verið notuð af opinberum aðilum en einnig hefur verið boðið uppá auðkenningu með rafrænum skilríkjum og hefur ríkið átt samstarf við bankana um skilríkin.
 Ef til vill var bankalausnin í lagi. Að ekki sé á það minnst þegar bankarnir voru í samfélagslegri eigu. Allt sæmilega traust og gott. En svo kom einkavæðingin og síðan hrun. Heimurinn varð hverfulli. Fyrirtæki á markaði má kaupa og selja. Ef selja má fyrirtæki, sem annast auðkenni, einum banka, þá má selja það öðrum og þess vegna hvaða fyrirtæki sem er. Við þekkjum kröfuna um jafnræði á markaði. Það þýðir væntanlega að selja mætti Samherja, Krónunni eða Núbó umsýslu með auðkenni Íslendinga.
Það sem við á annað borð setjum á markað er raunverulega þangað komið - eftirleiðis háð duttlungum og hagsmunum þeirra sem stýra fjármagni.
Nú má vel vera að niðurstaðan verði sú að bankarnir haldi áfram þróun grunnkerfis fyrir rafræn skilríki og rafrænar undirskriftir í samstarfi við ríkið enda er ekki um það deilt að þörf er á slíku kerfi. En stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir snýr að farveginum sem við viljum beina auðkenningarmálum almennt í til lengri tíma litið með hámarksöryggi fyrir almenning í huga. Væri í lagi að ríkisskattstjóri útvistaði sínu auðkenningarkerfi, eða heilbrigðisþjónustan? Kerfið yrði í höndum fyrirtækis á markaði og gengi þar kaupum og sölum?

Starfshópur sem ég skipaði sl. vor til að fjalla um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði leitar nú lausna til að auðvelda almenningi notkun rafrænnar stjórnsýslu og nýta rafræna möguleika í lýðræðismálum. Í áfangaskýrslu hópsins er lagt til að rekstur og þjónusta rafrænnar auðkenningar fyrir opinbera vefi verði í samfélagslegri eigu og annist Þjóðskrá Íslands  þróunarstarf og samræmingu á þessu sviði. Þessi þjónusta verði í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að sækja þjónustu á vegum opinberra aðila og til þess að eiga við þá samskipti. Jafnframt standi auðkenningarþjónustan til boða fyrir þjónustu einkaaðila.
Hér er með öðrum orðum talað fyrir samfélagslegum farvegi og litið á auðkenni sem hluta af innviðum samfélagsins.
Þessa umræðu þarf að taka. Mörg einkavæðingarslys undangenginna ára urðu vegna skorts á opinni umræðu.
En það er ekki bara hagsmunir markaðsfyrirtækja sem þarf að horfa til. Í stórveldapólitík framtíðarinnar kunna hagsmunirnir að liggja í yfirráðum yfir grunnkerfum samfélaganna. Lykill stórveldanna að þessum kerfum gæti þá hæglega orðið í gegnum markaðinn. Það skýrir fyrirsögnina á þessum pistli.