Fara í efni

MÆLISTIKA FRAMFARA: SAMKEPPNI EÐA SAMVINNA?

Mælistika framfara - markaðshyggja
Mælistika framfara - markaðshyggja


 

Ég hef sannfæringu fyrir því að tuttugasta og fyrsta öldin verði átakaöld á milli lýðræðis/samvinnu og almannaréttar annars vegar og fjármagns og fámennisstjórnar hins vegar.

Ennþá hefur fjármagns/fámennishópurinn vinninginn yfir almannaréttar/samvinnu- og lýðræðishópinn. Almennt draga fjölmiðlar hér á landi taum fyrri hópsins. Ekki vegna þess að íslenskir fjölmiðlamenn og þjóðfélagsrýnar séu á móti almannarétti og lýðræði. Því fer fjarri. (Það er helst að þeim sé í nöp við samvinnu!) Heldur vegna hins að tíðarandinn ætlast til þess að markaðurinn sé notaður sem viðmið og  mælistika á framfarir en ekki samstarf og samvinna sem þó skilaði okkur stórstígustu framförum liðinnar aldar.

Nýlega sagði vefmiðillinn Eyjan frá ákvörðun forstjóra Símans sem sögð var mjög til framfara. Hún gekk út á að stjórnendur og fleiri starfsmenn Símans verði fléttaðir inn í bónus- og eignafyrirkomulag fyrirtækisins. Peningarnir hljóti að vera hreyfiaflið. Þá var litið á það sem gríðarlegan sigur að fá lífeyrissjóði inn í eignarhaldið, að ekki sé minnst á erlent fjármagn sem hingað kemur til að sækja arð í eigin vasa. Vantar Símann pening? Eða liggur mönnum á að koma arðinum úr landi? Væru það framfarir?

Það er ekki langt síðan að Póstur og sími var í almannaeign. Hann skilaði árlega  MILLJÖRÐUM til almennings (og það var meira að segja fyrir tuttugu árum!) - beint í skatthirslurnar auk þess sem hann bar uppi öfluga póstþjónustu  - OG  TRYGGÐI OKKUR ÓDÝRUSTU INNANLANDS-SÍMAÞJÓNUSTU Á BYGGÐU BÓLI.

Síðan var Síminn gerður að hlutafélagi og svo var hann seldur. Nýr forstjóri sagði skömmu eftir breytinguna að sitt markmið væri að skila eigendum Símans sem mestum arði. Gamli forstjórinn hafði sagt að markmiðið væri að skila notendum hagkvæmri og ódýrri þjónustu!

Allt þetta virðist gleymt á ritstjórnum margra fjölmiðla. Eða vitneskjan einfaldlega ekki fyrir hendi: http://vefir.pressan.is/ordid/2015/08/23/til-eftirbreytni/

Auðvitað eru þetta engar framfarir, heldur afturför. Sama afturförin og fólgin er í því að erlendir braskarar byggja nú hótel á Hörpureitnum undir óskijanlegum fagnaðarlátum þegar það eitt gerist með tilkomu þeirra að arðurinn streymir úr landi frá hráefnanýlendunni Íslandi.

Markaðshyggja er sem fyrr segir grundvöllur fjölmiðlaumræðu á Íslandi nú um mundir.  Mjólkuriðnaðurinn - sem hefur verið mjög í brennidepli -  er þannig ræddur út frá siðfræði samkeppninnar - hversu illa farið sé  með smáfyrirtækin sem lítið megi sín í samkeppni á markaði.

En í samkeppnin við hvað og hverja eru þessi smærri fyrirtæki?
Svarið er einfalt. Þau eiga í samkeppni við samvinnufyrirkomulagið.  Við  árangursríkt samstarf og samvinnu bænda; samvinnu sem hefur reynst árangursrík fyrir bændur og fyrir neytendur.

Fleiri dæmi hef ég nefnt um ágengni markaðshyggjunnar í fjölmiðlaumræðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hugleidingar-um-hagsmuni