Fara í efni

MÆLI MEÐ ANGÚSTÚRU!

angustura - 2
angustura - 2

Sagt er að hljómplötur og hljómdiskar heyri liðinni tíð. Nú nái menn í allt á netið. Eflaust er þetta rétt nema sjálfum finnst mér gaman að handleika hljómdiskinn, að ekki sé minnst á gömlu vínyl-plöturnar. Oft voru umslögin listilega gerð og stundum óaðskiljanlegur hluti tónlistarinnar.

Þetta á ekki síður við um bókina. Framtíðin les bara af tölvuskjá er okkur sagt. Aftur er þetta eflaust rétt nema að sjálfur vil ég helst handleika bókina sem ég er að lesa. Og ef hún er góð setja hana upp í hillu til að minna mig á að hún er til.

Ekki verður sagt að ég sé sérfræðingur í klassískri tónlist. Því fer fjarri. Þó hlusta ég talsvert á slíka tónlist. Ég er svo heppinn að eiga þó nokkurn fjölda hljómdiska með klassískri tónlist sem eru uppi í hillu að minna á þá Bach, Mozart og Beethoven - og alla hina snillingana.

Heppinn segi ég. Í hverju skyldi sú heppni liggja? Hún fólst í því að um árabil var ég félagi í hljómdiskaklúbbi sem sendi félögum sínum disk með reglulegu millibili. Inn um bréfalúguna bárust þannig jafnt og þétt hljómdiskar með öndvegistónlist heimsins.

Allt þetta kom upp í hugann eftir að ég gerðist félagi í nýtilkomnum bókaklúbbi, Angústúru. 

Á vefsíðu sinni kynnir forlagið sig á yfirlætislausan hátt: "Angústúra er lítið bókaforlag í Vesturbænum sem opnar glugga út í heim með útgáfu spennandi og fallegra bóka frá öllum heimshornum í vönduðum þýðingum."

Þetta er ekki ofsagt! Með aldeilis frábæru vali á bókum eru okkur opnaðir gluggar út í heim, til Afríku, Rómönsku Ameríku, Asíu ...

Ég ætla að leyfa mér að mæla með áskrift að bókaklúbbnum Angústúru. https://www.angustura.is/