Fara í efni

MAÐUR EN EKKI HVALUR

Birtist í Morgunblaðinu 27.03.05
Bobby Fischer er orðinn Íslendingur sem kunnugt er. Framkvæmdavaldið var heldur fljótt á sér framan af og lofaði ríkisfangi, nokkuð sem einvörðungu var á færi Alþingis að veita við þessar aðstæður. Um það myndaðist hins vegar  breið samstaða á Alþingi og er það vel. Eflaust hafa mismunandi ástæður legið að baki ákvörðun manna að styðja við bakið á Fischer. Fyrir mitt leyti ber að líta á Fischer sem pólitískan flóttamann. Allt það góða fólk úr skákheiminum og víðar sem myndað hefur skjaldborg um Fischer og hefur viljað greiða götu hans á þakkir skildar og varð þrábeiðni þessa breiða hóps til þess að skapa vilja og samstöðu með þingmönnum. Sem betur fer á íslenskt samfélag til slík mannleg viðbrögð – nokkuð sem ekki á að kæfa með reglustikuaðferðum. Að sjálfsögðu á að vera jafnræði með fólki, einnig gagnvart þeim sem sækja um ríkisborgararétt. Þeir sem harðast ganga fram í þágu jafnræðishugsjóna eru hins vegar sumir því marki brenndir að sætta sig betur við aðgerðaleysi en brot á svokallaðri jafnræðisreglu. Mikilvægi Fischers er að hann er heimsþekktur. Þess vegna nær hans mál inn í helstu fjölmiðla heimsins. Mál hans getur þannig öðlast táknræna þýðingu.
Nú kemur á daginn að stuðningshópur Bobbys Fischers ætlar ekki að láta staðar numið heldur skoða mál fleiri einstaklinga sem frelsa má úr ómannúðlegri prísund. Ungur maður af íslensku bergi brotinn, fórnarlamb fordóma og miðaldahugsunar í bandarísku dómskerfi, hefur verið nefndur í því sambandi.
Þannig gæti mál Fischers orðið fordæmi að tilraunum Íslendinga til að láta gott af sér leiða í mannréttindabaráttu. Það er hins vegar ein hætta í málinu: Að áfergja fjölmiðla að gæða sér á "viðfangsefninu" komi til með að smækka okkur niður úr öllu valdi. Beinar útsendingar og smásmuguleg hnýsni gefur okkur því miður tilefni til að hafa af þessu nokkrar áhyggjur. Þetta var í lagi þegar Keiko átti í hlut. Keiko las ekki blöðin. Hann var hvalur. Bobby Fischer er hins vegar manneskja, ekki hvalur. Ég hvet íslenska fjölmiðlamenn til að hafa þetta í huga.