Fara í efni

MÁ BJÓÐA ÞÉR ÍBÚFEN?

Í framhaldi af vangaveltum hér á síðunni um einkavæðingaráráttu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar innan heilbrigðisþjónustunnar ( sbr. hér ), verður mér hugsað til þess ríkis sem lengst hefur gengið í að virkja markaðslögmálin á þessu sviði, þ.e.a.s. Bandaríkjanna. Fyrir nokkrum dögum heimsótti ég New York og dvaldi þar yfir helgi. Það var skemmtileg og fróðleg heimsókn. Talsvert fór ég um í leigubílum en án undantekninga höfðu bílstjórarnir útvarpið hátt stillt. Inn á milli tónlistar og annarra dagskrárliða var skotið auglýsingum. Athygli mína vakti hve margar þeirra fjölluðu um heilbrigðismál. Þannig voru lyf auglýst af miklum móð og einkareknar heilbrigðisstofnanir auglýstu ágæti sitt. Þar gætti lítillar hógværðar. Karlmannsrödd lýsti því fyrir okkur hve vel krabbameinssjúkri konu sinni liði á tilteknu sjúkrahúsi. Röddin kvaðst ráðleggja öllu veiku fólki að komast þangað. Alls kyns áherslur voru í þessum auglýsingum en þær áttu það allar sameiginlegt að vera óþægilega ágengar.
Í stefnudrögum Samfylkingarinnar um heilbrigðismál kveður við þennan sama miður geðfellda tón um að fyrirtæki í heibrigðisþjónustu eigi að keppa um athygli ( og væntanlega einnig peninga ) sjúks fólks: Auka beri "hagkvæmni, skilvirkni og samkeppni á milli heilbrigðisstofnana..." Og um einkareksturinn almennt segir: "Einkarekstur er öflugt tæki gegn biðlistum og eykur valkosti, hagkvæmni og starfsánægju í heilbrigðiskerfinu." Auðvitað á maður ekki að verða forviða að heyra yfirlýsingu af þessu tagi frá Samfylkingunni, flokki sem telur einkavæðingu grunnskólanna koma til álita og þá væntanlega til að draga úr kostnaði og auka starfsánægju starfsfólksins! Eflaust er starfsánægja fólks mismunandi frá einum vinnustað til annars og undir mörgum þáttum komið hverning til tekst að skapa starfsánægju. Hitt er víst að einkavæðing heilbrigðiskerfisins hefur alls staðar leitt til aukins kostnaðar en ekki minni eins og íslenskir samherjar Tonys Blairs hins breska halda fram.

En aftur að New York og amerískri samkeppni. Einhverju sinni vorum við stödd á fjölförnu götuhorni í hjarta borgarinnar. Að hópnum, sem þar er, vindur sér ungur maður, vel til hafður, með stóran poka. Hann er að auglýsa lyf. Hann býður mönnum að prófa. "Má bjóða ykkur íbúfen", segir ungi maðurinn? Hann brosir breitt. Ekki veit ég hvort það var starfsánægjunnar vegna eða vegna þess að hann hafi talið að brosmildur maður væri líklegri til að fá kúnnann til að kaupa vöru sína.