Fara í efni

Lyftum fólki til flugs...

Góðir félagar.
Til hamingju með daginn.
Ef til vill þarf börn til að sjá mjög skýrt muninn á réttu og röngu. Alla vega hefði það ekki vafist fyrir neinum í barnaafmælunum sem ég sótti forðum daga að sjá að ekki gengi í afmæli þar sem gestirnir væru tuttugu, að tveir þeirra borðuðu átján sneiðar af afmæliskökunni og skildu aðeins tvær eftir handa öllum hinum. Þá hefði án efa orðið mikið uppistand í afmælinu, foreldrar kallaðir til og sennilega hefðu hinir gráðugu óþekktarormar fengið tiltal.

Svo er nú ekki í heimi hinna fullorðnu. Við þurfum ekki annað en svipast um í okkar samfélagi. Vissulega sjá margir það ranglæti sem er við lýði, misskiptinguna í þjóðfélaginu þar sem 10% af þjóðinni sölsa undir sig lungann af þjóðarkökunni. En það sem er frábrugðið frá barnaafmælinu er að þeir sem eiga að teljast ábyrgir, sem í okkar heimi væri ríkisstjórn landsins, finnst ekkert við ástandið að athuga, koma ekki auga á neitt misrétti, hvetja jafnvel hina gráðugu og ófyrirleitnu til dáða, gefa þeim dýrar gjafir, banka, símakompaní, og bráðum líka vatnsveitur – það er að segja, ef þau sem eru á einkavæðingarbrókinni á vettvangi stjórnmálanna, fá sínu framgengt.

Fulltrúar þessara afla í þjóðfélaginu, Verslunarráðsins og samtaka atvinnurekenda hafa verið að tjá sig um samfélag okkar að undanförnu.

Í ræðu á nýafstöðnum aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sagði Ingimundur Sigurpálsson, nýkjörinn formaður samtakanna, Íslendinga standa frammi fyrir spennandi og ögrandi tímum mikilla fjárfestinga. Ingimundur skilgreindi stöðuna og sagði kaupmáttaraukningu undanfarinna ára að öllum líkindum hafa gengið lengra en æskilegt yrði að telja og til að draga úr þenslu lagði hann til að útgjöldum hins opinbera yrði haldið niðri. En misréttið sem formaður atvinnurekenda kom helst auga á í samfélaginu voru "sérréttindi" starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem hann nefndi svo. Ekki ætlaði Ingimundur Sigurpálsson að draga úr misréttinu með því að auka réttindi hinna sem væru réttindaminni – nei, hugmynd formanns atvinnurekendasamtakanna var að draga úr réttindum þeirra sem njóta. Með öðrum orðum, jafna kjörin niður á við.

Nú ætla ég að leyfa mér að mælast til þess að fulltrúar atvinnurekendasamtakanna tali skýrar. Er verið að tala um veikindarétt, lífeyrisréttindi, réttindi vegna veikinda barna, hvað eiga þeir við? Hver eru þessi "sérréttindi" sem eru atvinnurekendum þyrnir í auga? Og nánar þurfum við að fá skýringu á kaupmáttaraukningunni. Kaupmáttur hverra skyldi hafa aukist of mikið? Fiskverkunarfólks, strætisvagnastjóra, leikskólakennara, afgreiðslufólks í verslunum, sjúkraliða eða póstmanna?

Ég gef mér að hann sé ekki að horfa til stórforstjóranna, handhafa bónusa upp á marga tugi milljóna – eða starfslokasamninga við menn úr þessum hópi upp á enn hærri upphæðir. Þetta túlka samtök atvinnurekenda væntanlega ekki sem "sérréttindi"? Ég man aldrei eftir því að frá samtökum þeirra eða Verslunarráðinu heyrðist svo mikið sem minnsta kvak þegar þjóðin hefur þurft að horfa upp á handhafa fjármagnsins háfa inn gróða sinn.

Misskiptingin í íslensku þjóðfélagi hefur farið ört vaxandi. Um þetta er í sjálfu sér ekki deilt. Alla vega hvað snýr að öðrum endanum: auðmönnum Íslands. Okkur brá svolítið í brún fyrst þegar við heyrðum talað um milljarðamæringa en við erum löngu búin að venja okkur við þá tilhugsun, þótt vonandi venjum við okkur aldrei við það ranglæti sem þessar ofsatekjur eru sprottnar upp úr.

Um hinn endann eru menn ekki á eitt sáttir. Hve margir í landinu eru undir þeim mörkum að geta framfært sér og sínum og búa við raunverulega fátækt. Menn skilgreina fátæktina á mismundi hátt. En flestir eru sammála um, að við erum ekki einvörðungu að tala um þá sem ekki hafa til hnífs og skeiðar. Auðvitað er sá maður fátækur í okkar samfélagi sem ekki getur stundað menningarlíf, farið í leikhús, kvikmyndahús, keypt sér blöð og tímarit, gefið jólagjafir, hvað þá farið í ferðalög. Sú fjölskylda býr ekki við viðunandi kjör sem ekki hefur efni á því að senda börn sín í tónlistarnám eða stunda íþróttir.

Í skýrslu sem gerð var á vegum Landlæknisembættisins árið 1997 mátti - þá þegar - sjá teikn á lofti um að efnalítið fólk væri hætt að leita lækninga vegna þess að það hefði ekki nægileg fjárráð. Allar slíkar vísbendingar eigum við að taka alvarlega um hvert stefnir í þjóðfélagi okkar. Og við eigum að hlusta af mikilli alvöru á talsmenn öryrkja og láglaunafólks sem þrátt fyrir öll okkar öryggisnet er dæmt til ævilangrar fátæktar. Sá dómur var ekki kveðinn upp af þeirri ríkisstjórn sem nú situr fremur en þeim sem áður sátu. Staða efnalítils fólks hefur hins vegar verið að versna óðfluga í seinni tíð. Það er ekki vegna aukinnar skattlagningar. Sú umræða er öll á villigötum að mínum dómi. Það skiptir ekki sköpum þótt borgaðar séu nokkur hundruð eða þúsund krónur til viðbótar í skatta. Það sem máli skiptir eru þúsundirnar sem fara í lyfjakostnað, röntgenmyndirnar, það skiptir máli hver húsnæðiskostnaðurinn er, hver tilkostnaðurinn vegna barna er og þannig má áfram telja. Ég staðhæfi að umræða um meðaltöl varðandi kaupmátt og skattlagningu gefur engan veginn rétta mynd af stöðu þeirra sem eru efnalitlir. Það sem máli skiptir er að það er erfiðaðra en áður var að vera fátækur og verða veikur, það er erfiðara að vera fátækur og komast í húsnæði, það er erfiðara að vera fátækur og ala upp börn.

Ég ræddi við konu á miðjum aldri um daginn. Hún sagði mér frá dóttur sinni. Hún hefði veikst á unga aldri og orðið öryrki. Hún gæti stundað hlutavinnu. En svo rýr væru kjörin að hún sæi ekki fram á að geta eignast íbúð, aldrei lifað sama gæðalífi og jafnaldrar hennar. Ég spurði hvort hún greiddi mikinn skatt. Það eru einhver hundruð króna eða kannski nokkur þúsund, sagði konan. En það eru ekki þessir skattar sem valda henni áhyggjum, hún vill gjarnan greiða til samfélagsins en hún telur sig jafnframt eiga rétt á því að lifa lífinu með reisn; hún vill geta notið lífskjara á borð við aðra þegna þessa lands. Og móðirin hélt áfram, það er gott að búa við gott öryggisnet. En í öryggisneti vill dóttir mín ekki liggja allt sitt líf. Öryggisnet er ekkert annað en öryggisnet, og í netinu megum við ekki flækjast. Við megum ekki gera öryggisnetið að fátækragildru. Það er eitt að hafa net til að taka af fólki fallið annað að byggja einstaklinginn upp aftur og gefa honum líf. Og lífið fáum við ekki fyrr en við gefum af okkur. Allt er þetta gagnkvæmt því samfélagið verður sterkara við sérhvern einstakling sem styrkist.

Hagfræðingur BSRB sem unnið hefur að úttekt á íslenska skattakerfinu í ljósi markmiða sem stjórn samtakanna setti, spurði þegar hann heyrði þessa frásögn – er ekki okkar verkefni að fá þessari stúlku stiga upp í framtíðina? Þetta er hárrétt. Verkefnið er vissulega að þéttriða öryggsnetið en ekki síður er nauðsynlegt að ráðast í róttækar breytingar með það fyrir augum að losa fólk úr fátæktargildrum, gera því kleift að lifa lífinu með reisn við góð efnaleg skilyrði. Þetta er hægt en þetta kostar breytingar. Og til þess þurfum að hugsa málin upp á nýtt. Það kostar 800 milljónir að hækka skattleysismörk um eitt þúsund krónur. Það gefur 385 króna ábata í launaumslagið, þrjá hundrað krónupeninga og 85 krónur. Við erum hins vegar að tala um þörf á breytingum sem gefi lágtekjufólki tugi þúsunda, breytingar sem rýmkuðu einnig efnaleg skilyrði millitekjufólks.

Öll kerfi þurfa að vera í stöðugri endurskoðun og sífellt þarf að laga þau að breyttum aðstæðum. Leiðirnar breytast þótt markmiðin breytist ekki. Sem dæmi um þetta mætti nefna verkamannabústaðakerfið. Verkamannabústaðir voru reistir með góðum árangri til þess að sjá tekjulágum hópum fyrir húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta kerfi var að mörgu leyti gott en síðan komu nýjar leiðir til sögunnar til þess að auðvelda fólki húsnæðiskaupin eða aðgang að góðu leiguhúsnæði. Við eigum jafnan að vera opin fyrir nýjum leiðum og skoða þær fordómalaust og af yfirvegun.  Skattleysismörkin voru upphaflega  hugsuð sem jöfnunartæki og leið til að bæta kjör tekjulágra einstaklinga. Ef sú leið gagnast ekki sem skyldi þá þarf að hugsa nýjar leiðir.

Fyrir tæpu ári síðan tók stjórn BSRB ákvörðun um að ráðast í heildstæða úttekt á skattkerfinu. Okkur þótti ljóst að umræða um skattamál væri að mörgu leyti komin í öngstræti og þörf væri á nýrri nálgun af hálfu samtaka launafólks. Kanna bæri hvort beita ætti skattkerfinu á nýjan hátt  til að jafna og bæta kjör og afla samneyslunni tekna.

Þeir sem bera hag launafólks fyrir brjósti hafa um árabil lagt ofurkapp á hækkun skattleysismarka, nánast einblínt á þau og jafnframt hamrað á nauðsyn þess að hækka bótagreiðslur. Þessar kröfur hafa ekki skilað nægilegum árangri. Nú stöndum við jafnframt frammi fyrir því að margir stjórnmálaflokkar segjast munu beita sér fyrir umtalsverðum skattalækkunum á komandi kjörtímabili fái þeir stuðning kjósenda í alþingiskosningunum. Að óbreyttu kerfi myndi slíkt rýra tekjur ríkissjóðs og stefna velferðarþjónustu okkar í tvísýnu. Við öllu þessu þarf að bregðast og er mikilvægt að verkalýðshreyfingin leggi sitt af mörkum til að tefla fram nýjum hugmyndum sem sameina annars vegar réttlátt skattkerfi og hins vegar trausta tekjustofna fyrir velferðarþjónustu landsmanna. 

Í stað þess að ögra launafólki og skrumskæla veruleikann eins og talsmenn atvinnurekenda gerðu á aðalfundi sínum í byrjun þessarar viku, þá eiga þeir að setjast niður með okkur – hinni breiðu launamannafylkingu, stjórnmálaflokkum, Öryrkjabandalaginu, Samtökum aldraðra og Leigjendasamtökunum. Allir þessir aðilar eiga að sammælast um að rísa ekki upp frá borði fyrr en lögfest hefur verið skatta- og millifærslukerfi með þéttriðnu öryggisneti en jafnframt stuðningi til uppbyggingarstarfs.

Og aftur að markmiðum og leiðum. Innan verkalýðshreyfingarinnar viljum við flest viðhalda hátekjuskatti. En gæti verið að við eigum einnig að fara nýjar leiðir að því marki; taka mið af nýjum aðstæðum í þjóðfélaginu? Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Í landinu er stór hópur fólks sem telur eignir sínar í hundruðum milljóna á meðan aðrir hafa lítil efni og sumir búa við sára fátækt. Kjaramisréttið birtist ekki fyrst og fremst í þeim launum sem fólki eru greidd heldur mala auðmenn gull sitt í fjármálakerfi landsins og taka hagnaðinn út í formi arðs og vaxtagróða. Fráleitt er að slíkar ofurtekjur séu skattlagðar á annan hátt en tekjur af launavinnu. Sama spurning vaknar gagnvart atvinnufyrirtækjum – hvers vegna á að skattleggja þeirra tekjur á annan hátt en einstaklings sem aflar sér tekna með launavinnu og þarf að reka heimili sitt?

Með samræmingu í sköttum launa, fjármagns og fyrirtækja  yrði hægt að lækka skattprósenturnar umtalsvert án þess að rýra tekjur ríkissjóðs. Þetta er verkefnið framundan.

Verkefnið er að auka til mikilla muna ráðstöfunartekjur láglauna og millitekjufólks. Og gagnvart þeim sem allra lægstu tekjurnar hafa þá eru skilaboðin eins skýr og verða má:
Verkefnið er að útrýma fátækt á Íslandi.
Þann smánarblett á að þvo af íslensku þjóðfélagi. Það á að hafa forgang umfram allt á komandi árum.

Við ætlum að segja við móðurina sem breiddi vængi sína yfir fatlaða dóttur.
Þitt verkefni er okkar verkefni.
Þínir vængir skulu verða okkar vængir.
Við skulum riða netið,
við skulum taka af fólki fallið,
en við skulum líka lyfta því til flugs.

Allir eiga að geta eignast heimili,
allir eiga að geta eignast fjölskyldu ef þeir svo kjósa,
allir eiga að fá notið lífsgæða,
og þegar það gerist,
þá fær samfélagið sitt framlag margfalt endurgoldið. 

Við skulum ekki mikla verkefnin fyrir okkur. Þegar einhver dettur í vök – þá látum við ekki nægja að halda andlitinu uppúr – við erum stór hópur og okkur er ekki skotaskuld að draga félaga okkar uppúr, þerra hann og koma honum á flug – þannig er verkalýðshreyfingin,
þannig  hugsar hún,
þess vegna er hún til.

Til hamingju með baráttudag verkalýðsins.