Fara í efni

Lýðræðið er í húfi

Grunntónninn í grein  Jóns K. Stefánssonar, sem birtist á heimasíðunni í dag, en hann hefur áður skrifað í nafni frjálsra penna hér á síðunni, er að minna á að baráttan í þjóðfélaginu er á milli fjármagnsaflanna annars vegar og lýðræðis og hagsmuna almennings hins vegar. Grein Jóns heitir Ísland ehf. Titillinn ætti strax að verða okkur umhugsunarefni. Í greininni segir m.a.: „Svo að almenningur geti í raun ráðið einhverju um sitt umhverfi og framtíð, (lýðræði) þarf tryggingu fyrir því að þeir sem kjörnir eru í nafni almennings til að setja lög og stjórna landinu geri það með hagsmuni almennings að leiðarljósi.  Ef sömu mennirnir ráða á Alþingi og í stórfyrirtækjum eins og Burðarás og Búnaðarbankanum-Kaupþing eru völdin í of fáum höndum.“

Ég vil hér bæta Landsbankanum við, en hann hefur sýnt okkur á síðustu dögum hvers við megum vænta í draumalandi einkavæðingarinnar. Ég get glatt lesendur með því að fljótlega birtist önnur grein eftir Jón K. Stefánsson um ísraelskan mann, Mordechai Vanunu, sem starfaði við kjarnorkverksmiðju í Ísrael en var dæmdur í fangelsi fyrir að upplýsa almenning um vitneskju sína. Það gerði hann í þágu lýðræðis og mannréttinda.