Fara í efni

LÝÐRÆÐI Í SÓKN - VALDAKERFI Á UNDANHALDI


Yfir áttatíu þúsund manns tóku þátt í kosningu á Stjórnlagaþingið. Hefði mátt vera fleiri en góður fjöldi þó.  Margt var nýtt við þessar kosningar, mikill fjöldi frambjóðenda, atkvæðagreiðslan óx mörgum í augum, virtist flóknari en venjulega.
Allt þetta mun breytast með reynslunni, þegar fólk hefur áttað sig á að það sem virðist flókið við fyrstu sýn er sáraeinfalt.
Margir góðir frambjóðendur komust ekki inn á þingið - fólk sem að mínu mati hefði átt mikið erindi. Á hinn bóginn er á það að líta að fjöldi góðra einstaklinga náði kjöri og bind ég vonir við að þeim farnist vel í sínu starfi. Ég er sannfærður um að 21. öldin verður öld lýðræðisins. Stjórnmálaflokkar munu í vaxandi mæli eiga undir högg að sækja. Meiri áhersla verður á beint  og milliliðalaust lýðræði. Fulltrúaþingin þurfa að vanda sig og vera þess minnug að þau mega aldrei verða of stór upp á sig - enda aðeins eitt form lýðræðisins, millistig sem er okkur nauðsynlegt af hagkvæmnisástæðum  því erfitt að koma því við að kjósa kvölds og morgna um alla hluti. Þess vegna felum við fulltrúum á þingi að finna lýðræðislegum vilja okkar farveg. En eftir því sem það verður auðveldara af tæknilegum ástæðum að kjósa mun þjóðin í sífellt ríkari mæli óska eftir að taka valdið milliliðalaust til sín. Það mun verða gert í öllum stórum hitamálum sem samfélagið glímir við, varðandi stórvirkjanir, auðlindir, einkavæðingu  - einhverjir eru skelfingu lostnir yfir því að farið verðI að kjósa um fjárlög. Ekki deili ég þessum ótta. Hef reyndar ekki leyfi til þess, fremur en nokkur annar.
Það sem drjúgur hluti þjóðarinnar vill að verði tekið til almennrar atkvæðagreiðslu verður að fara þá leið. Í umboði hvers eða hverra skyldu menn fá vald til að banna það?
Verkefnið framundan er að greiða götu lýðræðis og brjóta niður gamlar valdastofnanir. Stjórnmálaflokkar eru þar ekki undanskildir.