Fara í efni

LOKSINS FARINN AÐ GERA GAGN?

Ogmundur III
Ogmundur III


Að undanförnu hafa dætradætur mínar, þær Sigríður Olga Jónsdóttir og Valgerður Þorvarðardóttir sýnt mér þann heiður að fara með mér öðru hvoru í skoðunarferðir um Reykjavík eftir skóla.

Við höfum einbeitt okkur að söfnunum, erum búin að heimsækja Árbæjarsafn og Þjóðminjasafnið, skoða Landnámssýninguna í Aðalstræti, Hvalaasafnið á Granda, safn Einars Jónssonar í Hnitbjörgum á Skólavörðuholti (þar er myndin tekin), Kjarvalsstaði og heimsækja listafólk á Korpúlfsstöðum.

Framundan er allur veturinn og söfnin í Reykjavík og nágrenni bíða okkar sem konfektkassi.

Þótt ánægjan sé ekki síst mín þá reyni ég að sjá til þess að mínar ungu samferðarkonur hafi einnig gaman af og helst líka gagn.  

Til að lífið verði ánægjulegt þarf okkur að finnast það vera innihaldsríkt og þá helst þannig að saman tvinnist ánægja og gagnsemi. Þetta má til dæmis gera með því að veita ungviðinu innsýn í menningu og sögu.

Í lífinu hef ég fengist við margt, sinnt ófaglærðum störfum, unnið við fréttamennsku og kennslu, starfað innan verkalýðshreyfingar og í stjórnmálum. En þrátt fyrir að víða hafi verið lögð hönd á plóg þá læðist sú hugsun að mér að núna fyrst sé ég farinn að gera gagn.