Fara í efni

LÖGREGLUMÁL


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 29/30.08/09.20.
Fyrir fáeinum dögum átti ég fróðlegt samtal við einn helsta forystumann lögreglumanna, fyrrum samstarfsmann frá þeim tíma sem ég gegndi formennsku í BSRB.

Sitthvað bar á góma. Ósamið væri við lögreglumenn og liði hver mánuðurinn á fætur öðrum án kjarasamnings. Enn einu sinni stæðu lögreglumenn í þjarki við ríkisvald sem neitaði að virða eigin skuldbindingar um launaþróun stéttarinnar. Þá vék tali að óskemmtilegum fréttum sem nú berast ítrekað vestan frá Bandaríkjunum af ofbeldi lögreglu gagnvart fólki svörtu á hörund.

Viðmælandi minn kvað þetta ástand vera grafalvarlegt enda augljóst að þarna væri til orðinn illur vítahringur ofbeldis og óvildar – og síðan ótta. Hann væri á báða bóga. Annars vegar óttaðist margt svart fólk ofbeldisfulla lögreglu og að sama skapi óttaðist lögregla ofbeldi í sinn garð og þá væntanlega sumpart samkvæmt hinu gamalkveðna, sök bítur sekan.

Víðs vegar um Bandaríkin vikjust lögreglumenn undan því að gegna næturvöktum í “erfiðum” hverfum, tilkynntu sig veika. Þeir sem mættu væru svo aftur með puttann á gikknum.

Að sjálfsögðu væri ekki hægt að alhæfa um gervöll Bandaríkin að þessu leyti. Í sumum ríkjum þar vestra, borgum og bæjum, væri friður og spekt þótt ósætti og jafnvel bein átök væru að færast í aukana.

Sjálfum þótti mér það segja meira en orð fá lýst þegar þær fréttir fóru að berast frá Minneapolis, þar sem kveikjan að fjöldamótmælum varð til við morðið á George Floyd, og í kjölfarið frá fleiri borgum, að svar almennings væri að krefjast niðurskurðar á fjárframlögum til lögreglunnar, jafnvel að hún yrði lögð niður!
Meira getur vantraust varla orðið - og uppgjöf, leyfi ég mér að bæta við.

Leiðarahöfundur í íslensku landsmálablaði greip þetta á lofti og skrifaði eftirfarandi í blað sitt í júní síðastliðnum í tengslum við deilumál sem þá var uppi hér á landi: “Þegar að er gáð eiga hugmyndir bandarískra mótmælenda sem arka um götur stórborga og kyrja “Defund the Police”, ekkert síður erindi hér hjá okkur.”

Þótt þetta hafi verið skrifað í hita baráttu og verði að skoðast í því samhengi þá var þetta engu að síður fært í letur og það eitt ætti að verða tilefni til umhugsunar.

Illa mönnuð og fjárvana lögregla er hrædd lögregla. Og hrædd lögregla leitar skjóls í valdi, vill helst vopn og beitir þeim þegar í nauðir rekur. Þetta sanna nú dæmin vestur í Ameríku.

Á BSRB-árum mínum hlustaði ég mikið á hina vísu menn sem alltaf var að finna hjá Landssambandi lögreglumanna. Frá þeim komu varnaðarorð gegn vopnaburði og frá þeim kom hvatningin um að byggja upp lögreglulið til stuðnings samfélaginu; hinum almenna manni til varnar gegn hvers kyns ofbeldi. Þeir vildu með öðrum orðum samfélagsvæna lögreglu sem skipuð væri afbragðsfólki.

Í kjölfar efnahagshrunsins fyrir rúmum tíu árum voru fjárveitingar til löggæslunnar í landinu skornar ótæpilega niður. Það var hugsað sem tímabundin ráðstöfun en varði of lengi. Að þessu stóð ég sem þáverandi dómsmálaráðherra ásamt þeirri ríkisstjórn sem þá sat. Mitt framlag var síðan að sundurgreina niðurskurðinn og birta um hann nákvæmar upplýsingar með það fyrir augum að þetta yrði lagfært þegar borð yrði fyrir báru. Um þetta sammæltust stjórn og stjórnarandstaða á Alþingi.

 

Við þetta hefur ekki verið staðið.

Lögreglan á það skilið að hennar hlutur verði að fullu bættur og að samið verði við lögreglumenn á forsendum sem voru fastmælum bundnar þegar lögreglan illu heilli afsalaði sér verkfallsrétti sínum fyrr á árum.

Þetta er brýnt lögreglumál sem varðar okkur öll.
Lögreglumál af þessari stærðargráðu þolir ekki bið og ber að leysa.