Fara í efni

LÖGREGLAN ER OKKAR ALLRA


Frábært var að verða vitni að því þegar friðsamir mótmælendur gengu fram fyrir skjöldu í bókstaflegri merkingu eftir að fjöldi lögreglumanna hafði verið slasaður með steinkasti. Þetta kvöld var beitt táragasi í fyrsta sinn á Íslandi síðan árið 1949. Öllum mátti ljóst vera hver alvara var á ferðum.
Þá gerðist það: Mótmælendur hlupu til og mynduðu varnarskjöld fyrir framan lögreglumennina til að bægja frá ofbeldi gegn þeim jafnframt því sem áhersla var með þessu móti lögð á að reiðin ætti ekki að beinast gegn lögreglumönnum, þeir væru engir sökudólgar heldur samborgarar að sinna störfum sínum. Í stórum hópum setti fólkið á sig appelsínurauða borða til merkis um að það vildi einvörðungu friðsamleg mótmæli. Og von bráðar voru margir lögreglumenn komnir með nælda í sig borða og blóm í sömu litum.
Ég hef iðulega hvatt til þess - meðal annars hér á síðunni - að einvörðungu yrði mótmælt á friðsamlegan hátt. Hafa þarf í huga að réttlát reiði brennur með þjóðinni vegna þess að framin hefur verið á henni stórglæpur, sem enn er óuppgerður. Reiðin er réttmæt. Mótmælin eru réttmæt. Og þau eru nauðsynleg. Þau sýna að lífsmark er með þjóðinni. Fjármálahrunið hefur þegar haft það í för með sér að fjöldi fólks hefur misst atvinnu sína og horfir fram á gjaldþrot og heimilismissi. Þau sem safnast saman til að mótmæla ranglætinu koma úr öllum stjórnmálaflokkum eða standa utan flokka. Þau eiga það eitt sammerkt að andmæla ranglæti og krefjast úrbóta þegar í stað.
Til lögreglunnar eru gerðar miklar kröfur ekki síður en til mótmælenda. Enn meiri kröfur. Stundum ofurmannlegar kröfur. Það góða er að lögreglan hefur þegar á heildina litið risið undir þessum kröfum, oft við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður. Það á vissulega við um undafarna daga. Ég hef dáðst að þeim sjálfsaga sem lögreglan hefur sýnt..
Ef á þessu eru undantekningar þarf að sjálfsögðu að taka þær mjög alvarlega, ræða og laga. Í áranna rás hefur það verið íslensku lögreglunni kappasmál að svo sé gert. Í því felst styrkur hennar: Að halda stillingu og ró og geta jafnframt tekið réttmætri gagnrýni og beint henni í uppbyggilegan farveg.
Hér á síðunni vitnaði ég nýlega til ummæla lögreglumanns sem ég hitti fyrir utan Alþingishúsið. Ég spurði hann um mótmælin. Hann sagði að menn mættu aldrei gleyma því að lögreglan væri hluti af samfélaginu, fólk einsog annað, með skuldum vafin heimili, jafnvel að komast í þrot: „Við erum ekki andstæðingurinn. Það verður fólk að skilja."
Undir þetta vil ég taka heilshugar einsog ég hef áður margoft gert.
Það er hlutverk okkar allra að vernda góða löggæslu á sama hátt og hún verndar okkur.