Fara í efni

LÖGREGLAN Á NETINU?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 17.11.13.
Í vikunni sat ég fund félagsmálanefndar Evrópuráðsins; og einnig undirnefndar þeirrar nefndar sem fjallar sérstaklega um kynferðisofbeldi gegn börnum. Fundurinn var haldinn í Genf í Sviss og voru kallaðir til sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem þar halda til, auk aðkomumanna. Þeirra á meðal var Hollendingur, Hans Guyt að nafni,  frá samtökum sem vinna gegn barnaníði.
 Þessi samtök komust nýlega í fréttir eftir að þau létu búa til tölvugerða smástúlku sem bauð upp á „þjónustu" á netinu. Þúsundir svöruðu og á heimskorti sem okkur var sýnt sást að nokkrir svarendur voru frá Íslandi. (sjá: http://www.terredeshommesnl.org/en)

Það er skemmst frá því að segja að á þessum fundi var dregin upp hrikaleg mynd og það sem verra er, sérfræðingarnir segja að ástandið fari versnandi. Barnaníð - það er, bein samskipti geranda og þolanda - sé í miklum mæli komið á internetið og færist þar ört í vöxt. „En er netáreiti ekki saklausara en ofbeldisfull snerting", var þá spurt. Okkur var sagt að vitnisburður barnanna og rannsóknir á líðan þeirra bentu til að upplifunin væri næsta áþekk - alla vega mjög slæm og geti haft varanleg áhrif á sálarlífið.

En hvað skal taka til bragðs? Fyrrnefndur Hollendingur kvaðst ekki vera í vafa um hvað bæri að gera. „Á internetinu er almannarými, sambærilegt götum og torgum", sagði hann." Lögreglunni er ætlað að gæta öryggis okkar á götum úti. Hvers vegna á ekki hið sama að gilda um netið? Viljum við að á netinu fari fram ólöglegt athæfi sem við myndum aldrei líða í hefðbundnu almannarými?" Og síðan bætti hann því við, að við mættum ekki gleyma því að um væri að ræða ofbeldi gegn litlum börnum sem ekki gætu varið sig. „Ætlum við virkilega ekki að koma þeim til hjálpar?"

Auðvitað hljótum við að gera það. Það er fyrsta spurningin sem að mínum dómi á afdráttarlaust að svara játandi. En þar með er ekki björninn unninn. Svara þarf mörgum flóknum spurningum: Hvar eru landamæri almannarýmis og einkarýmis? Er í lagi að fremja ofbeldi í einkarými, bara af því að það er á netinu? Hvar á að draga mörkin á milli persónuverndar og almannahagsmuna ? Og þar sem umhverfið er alþjóðlegt þarf að spyrja hvar ákvörðunar- og löggjafarvald eigi að liggja? Við vitum hvernig bandaríska Þjóðaröryggisstofnunin skilgreinir almannahag . Hún vill fangelsa lýðræðisuppljóstrara fyrir að dreifa „illa fengnu"  og  „ólöglegu" efni sem skaði „hagsmuni ríkisins" á sama tíma og mannréttindasamtök þakka þeim fyrir að dreifa upplýsingum á netinu og í fjölmiðlum í þágu almannahags!

 Landamærin á milli almannahags og friðhelgi einkalífsins verða aldrei endanlega skilgreind. Þau eiga enda stöðugt  að vera í opinni og gagnrýnni umræðu. Þannig þokar mannréttindasamfélagið sér fram á við.

Ég hef viljað vera varkár í öllu inngripi lögreglu hvað varðar njósnir og hleranir. Ég hef viljað skilgreina mjög þröngt heimildir lögreglu og varað við úrræðum sem vega að friðhelgi einkalífsins, þar á meðal notkun almennra tálbeita, þ.e. sem beinast ekki að einstaklingi vegna gruns um glæp. 

Hitt er svo alveg ljóst að börnin vil ég vernda. Og ofbeldismenn eiga ekki að geta athafnað sig í skjóli ósnertanlegs internets. Margir skella hurðum áður en umræða getur hafist um hvað skuli liðið á netinu og hvað ekki. Ég spái því að slík afstaða muni brátt heyra sögunni til hjá öllum þorra fólks.