Fara í efni

LOFSVERT AÐ ÞORA...


Ég er ekki viss um að ég sé sammála Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra þegar hann segir að hann vilji áfengisútsölu ÁTVR burt úr Austurstræti og þar með miðborginni.
Vilhjálmi borgarstjórra er hins vegar greinilega afleitlega við drykkjusvall í hjarta borgarinnar.  Þar hygg ég að hann tali fyrir hönd margra borgarbúa.
Spurningin er aftur hvernig eigi að sporna gegn sliku. Almennt er ég  þeirrar skoðunar að aðgengi að ÁTVR eigi að vera auðvelt og útsölur því víða. Einnig og ekki síst í miðborg Reykjavíkur. Ég er hins vegar á móti auglýsingamennsku og hvers kyns ágengni af hálfu seljenda. Slíkt myndi aukast um allan helming ef farið yrði að vilja markaðshyggjufólks sem berst fyrir því að leggja niður ÁTVR með það fyrir augum að koma áfengisútsölu í almennar matvöruverslanir. Yrði það ofan á yrðu margir um að berjast sín í milli um að koma áfengi ofan í fólk, einnig í grennd við Austurvöllinn í Reykjavík! Um það fengi Vilhjálmur Þ. borgarstjóri að öllum líkindum litlu ráðið.
En þótt ég sé ekki sammála  borgarstjóra að þessu leyti þá tek ég engu að síður ofan fyrir honum fyrir að vera sannur sjálfum sér og þora að tala máli hins frjálsa manns þvert á peningaræði og múghyggju. Þetta gerði hann einnig varðandi spilavítisvélarnar í Reykjavík við litla hrifningu hagsmunaaðila hjá Rauða Krossinum, Landsbjörgu, SÁÁ og Háskóla Íslands, aðila sem sjá sóma sinn í því að hagnast á kostnað fólks sem ánetjast hefur spilafíkn.
Borgarstjóri hefur orðið fyrir aðkasti á netsíðum og í almennum fjölmiðlum vegna yfirlýsinga sinna um brennivínsútsölur og spilabúllur. Ekkert er athugavert við að fólk viðri sjónarmið sín um þessi efni og hafi þess vegna á þeim miklar skoðanir. Það hefur borgarstjóri einnig leyfi til að gera – og gott betur. Honum ber að leita leiða til að finna lausnir á vandamálum sem plaga borgarbúa. Og orð eru til alls fyrst.
Spurningin snýst ekki um það eitt hvort borgarstjóri hafi rétt fyrir sér heldur að hann skuli þora að taka afstöðu í umdeildum málum einnig þeim sem ekki falla í kramið hjá sterkum hagsmunaaðilum. Fyrir það á hann hrós skilið.