Fara í efni

LÍU krefst réttlætis

Sjónvarpsfréttir laugardaginn 9. ágúst árið 2003 eiga eftir að verða mörgum eftirminnilegar. Þetta var fréttatíminn, sem formaður LÍÚ gerði þjóðina endanlega kjaftstopp. Í fyrsta lagi var svo að skilja á Kristjáni Ragnarssyni, að hann teldi smábátaveiðar almennt til óþurftar, og blési þar með á allt sem heitir vistvænar veiðar. Maður fékk á tilfinninguna að fremur vildi hann togara en smábáta uppí landsteinana. Látum þetta þó vera, því það var ekki fyrr en Kristján gerði réttlætið að umræðuefni að menn misstu kjálkann niður á bringu.
Í huga þorra landsmanna hefur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi haft í för með sér ranglæti og misskiptingu sem mæld er í milljarðatugum á tugi milljarða ofan, byggðaröskun, auðn og atvinnuleysi. LÍÚ eru þau samtök sem hafa skipað sér í forsvar þessa kerfis. Það er þess vegna meira en hraustlega mælt þegar formaður þessara samtaka segir að tilslakanir til bátasjómanna myndu hafa í för með sér óþolandi ranglæti. Það má ekki hygla einum á kostnað annars, sagði Kristján Ragnarsson. Það kann svo að vera. En ég er hræddur um að margur kvótalus sjómaðurinn og útgerðarmaðurinn, sem þurft hefur að greiða háar upphæðir fyrir leigu eða kaup á fiskveiðiheimildum til kvótakónganna, sem kerfið hefur úthlutað ómældum forréttindum (að sjálfsögðu á kostnað annarra), hafi þurft að klípa sig fast í handlegginn til að fá staðfestingu á því að gamlárskvöldið er ekki runnið upp með hefðbundinni skrumskælingu og skaupi.