Fara í efni

Lífeyrissjóðirnir og stóriðjuáformin

Birtist í Mbl
Síðastliðinn laugardag skrifar Stefán Pétursson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Stjórnarformaður LSR, Reyðarál og Landsvirkjun. Í þessari grein er undirrituðum sendur tónninn og sú einkunn gefin að þekkingu minni sé „stórlega ábótavant.“

Fjármálastjóri Landsvirkjunar fagnar því að ég skuli hafa áhyggjur af afkomu Landsvirkjunar en með semingi þó því hann bætir því við að þessar áhyggjur af afkomu Landsvirkjunar „mega þó ekki hafa forgang umfram þá ábyrgð og áhyggjur sem hann á að hafa af ávöxtun þeirra sjóða sem honum er treyst fyrir.“ Er hér vísað í setu mína í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR.

Hvers vegna leyfi?

Í þessari blaðagrein sem virðist samin í nokkru tilfinningauppnámi er farið um víðan völl. Meðal annars er býsnast yfir þeirri ábendingu minni að ekki sé lokið lögformlegu umhverfismati hvorki fyrir álver né fyrir virkjun og því ekki ljóst hvort ráðist verði í þessar framkvæmdir. „Hvernig taka menn viðskiptaákvarðanir,“ spyr Stefán Pétursson fjármálastjóri með nokkrum þjósti og „…hver eru rökin fyrir því að bíða þurfi eftir öllum leyfum áður en mál eru skoðuð og metin?“

Mér er ljúft að upplýsa Stefán Pétursson um afstöðu mína þótt ég telji þetta mál engan veginn eins einfalt og mér virðist hann álíta. En í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á vönduð vinnubrögð og að staðið verði við þau loforð og fyrirheit sem gefin eru. Þannig hefur því verið marglýst yfir að ekki skuli ráðist í neinar framkvæmdir sem tengjast virkjunum eða álveri fyrr en öll tilskilin leyfi liggi fyrir og efnahagslegar forsendur séu ljósar. Af slíkum smámunum virðast Landsvirkjunarmenn ekki mjög uppteknir og hafa þrýst á fjárfrekar undirbúningsframkvæmdir. Í blaðagreinum í vor og í sumar hef ég ítrekað en án árangurs óskað eftir því við hlutaðeigandi yfirvöld að skýring sé gefin á vegaframkvæmdum sem augljóslega tengjast virkjunaráformum þvert á gefin fyrirheit. Við þekkjum það af reynslunni að næsta vers er síðan að svo miklir fjármunir séu komnir í undirbúningsframkvæmdir að vart verði aftur snúið.

Ég hef leyft mér að vera talsmaður þess sjónarmiðs að stíga öll þau skref sem stigin verða af varfærni og yfirvegun. Við skulum hafa það hugfast að um er að ræða mjög afdrifaríka ákvörðun fyrir landið og fyrir þjóðina og því brýnt að hvergi verði rasað um ráð fram. Hér hefðu stjórnvöld þurft að hafa vit fyrir ákafamönnum í Landsvirkjun. Því er nú öðru nær enda snúast þær deilur sem hafa risið einmitt um vinnubrögð stjórnvalda og þann þrýsting sem lífeyrissjóðir og aðrir stórir fjárfestingaraðilar eru beittir til þess að knýja fram stuðning við stóriðjuáform stjórnvalda.

Loforð innheimt síðar

Í byrjun júnímánaðar var stjórnarmönnum og starfsmönnum stærstu lífeyrissjóðanna boðið til fundar að hlýða á fulltrúa frá fjárfestingarhópnum um Reyðarál, Hæfi ehf., Þjóðhagsstofnun og Landsvirkjun. Allir framsögumenn drógu upp bjarta mynd af þeim fjárfestingarkosti sem lífeyrissjóðunum kæmi til með að standa til boða. En tíminn væri naumur, var fundarmönnum tjáð, og væri mikilvægt að viljayfirlýsingar kæmu frá lífeyrissjóðunum helst fyrir júlílok. Slíkar yfirlýsingar mættu vera óformlegar á þessu stigi en „loforðin yrðu innheimt“ upp úr áramótum. Síðan gerist það að fulltrúar Hæfis senda lífeyrissjóðunum plagg til undirritunar, „Secrecy agreement,“ eða samkomulag um trúnað. Opinberlega var því að sjálfsögðu alltaf haldið fram að ekkert annað stæði til en að kanna málin, engar ákvarðanir væru í sjónmáli. Engu að síður var farið að nefna upphæðir sem kæmu nú frá lífeyrissjóðunum, átta til tíu milljarðar.

Frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna hljóta þetta að teljast óvenjuleg vinnubrögð. Fram til þessa hafa þeir ekki komið að viðræðum um fjárfestingarkosti fyrr en þeir eru fyrir hendi. Hér er hins vegar um það að ræða að taka þátt í að skapa fjárfestingarkost. Það er ljóst að aðkoma lífeyrissjóðanna hefur ekki aðeins fjárhagslega þýðingu heldur einnig félagslega. Yfrirlýsing frá stærstu lífeyrirssjóðum landsins er talin geta haft áhrif á erlenda aðila auk þess sem slík ákvörðun myndi án nokkurs vafa styrkja stóriðjuáform stjórnvalda hér innan lands. Ég hefi bent á að með þessu móti væru lífeyrissjóðirnir komnir í pólitískt hlutverk og við skyldum þá ræða það opinskátt hvort okkur þætti það æskilegt. Fyrir þessa afstöðu hef ég uppskorið þá gagnrýni að ég hljóti að teljast pólitískur. Það er hins vegar ég sem er að benda á þann þrýsting sem er á að nota lífeyrissjóðina í pólitískum tilgangi og ég hef haft uppi varnaðarorð. Sjálfur hef ég vissulega verið talsmaður þess að skoða fjárfestingar lífeyrissjóðanna í félagslegu ljósi, til dæmis verið því fylgjandi að nýta þá til uppbyggingar í húsnæðiskerfinu. En forsenda þessa - og þetta er grundvallaratriði - er að um sé að ræða fullkomlega traustan fjárfestingarkost. Lífeyrissjóðirnir eru myndaðir til þess að varðveita lífeyrissparnað landsmanna og ekki rétt að tefla fjárfestingum þeirra í neina tvísýnu.