Fara í efni

LÍFEYRISSJÓÐIR TIL VARNAR


Fyrir nokkrum dögum lýsti Kennarasamband Íslands yfir því að lífeyrissjóðirnir ættu að taka samfélagslega afstöðu til fjárfestinga á þeirra vegum; þeir ættu að hugsa í þágu samfélagslega ábyrgra lausna.
Þessu er ég sammála. Við eigum að byggja Ísland upp á nýjum grunni; samfélagslega ábyrgum. Allir eiga að leggjast á árarnar. Þeir sem eiga hlut í hruninu eiga að halda sig til hlés. Engan með umdeilanlega fortíð á þó að útiloka á grundvelli óljósrar lagasetningar. Ég vil frekar sannfæringuna en lagaskylduna - samkvæmt formúlu Eiríks, formanns KÍ.
En, Eiríkur og félagar -  hvað með að ganga lengra með ábyrgðarkennd lífeyrissjóðanna?
Ef haldið verður áfram að þrengja að Íslandi þegar við nú reynum að rísa á fætur og höfnum Icesave ofríkinu og okkur hótað öllu illu í framhaldinu, greiðslufalli og lokun á lánalínum, hvernig væri að lífeyrissjóðirnir minntu á eignir sínar í útlöndum; að þegar kæmi að erfiðri endurfjármögnun á árunum 2011-2012 þá minntu lífeyrirssjóðirnir á eignir sínar í útlandinu - 500 milljarða í erlendum eignum - að þeir kæmu Íslandi til varnar á ögurstundu?
Þetta þjónaði hagsmunum lífeyrissjóðanna, þetta þjónaði hagsmunum Íslands, þetta þjónaði hagsmunum okkar allra. Er þetta ekki augljóst mál? Mér finnst það.
Reyndar held ég að staðan sé ekki eins slæm og úrtölumenn láta í veðri vaka - nú síðast talsmenn ASÍ og SA.