Fara í efni

LÍFEYRISSJÓÐIR AXLI ÁBYRGÐ!

Villi og Gylfi
Villi og Gylfi

Því miður féllust fjármálastofnanir ekki á að fara almenna niðurfærsluleið þegar efnt var til víðtæks samráðs með þeim síðastliðið haust. Niðurfærsluleiðin sem Hagsmunasamtök heimilanna lögðu til og ég studdi, gekk í grófum dráttum út á að frá upphafi árs 2008 og fram á haustið 2010 yrðu vextir sem vísitölubundin lán báru látnir halda sér en verðbætur ekki hærri en efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans eða 4%. Þannig væri kostnaðinum af verðbólguskotinu í kjölfar hrunsins skipt á milli beggja aðilja, lántakanda og lánveitanda.
Fjármálastofnanir töldu þetta af og frá og nutu stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ekki mátti heyra á það minnst  að gripið yrði til almennra aðgerða.
Við svo búið var leitað annarra lausna; að greiddar yrði sérstakar vaxtabætur, að upphæð tólf milljarðar á tveimur árum og skyldi fjármálakerfið fjármagna það með tímabundnu framlagi. Þessu var tekið fálega en þó létu bankarnir sig hafa þetta eftir að ríkið féllst á að taka hluta byrðanna (5 milljarða af 12) á sig (þ.e. skattgreiðendur). Öðru máli gegndi um lífeyrissjóðina. Öllum lífeyrissjóðum landsins var ætlað að greiða 1,4 milljarða, hvort ár, bönkunum 2,1 og ríkinu 2,5. Lífeyrissjóðirnir fundu þessari aðferð allt foráttu og spurðu hvort menn gerðu sér ekki grein fyrir því að verið væri að ganga á sjálfan eignarréttinn, því þetta skerti inneign verðandi lífeyrisþega! Þá var að skilja að svo væri litið á að lífeyrissjóðirnir væru alsaklausir af hruninu og bæru því engar siðferðilegar skyldur. 

Og nú þegar um þetta er enn deilt koma þeir fram á sjónarsviðið, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, og segja þetta enn svívirðilegra fyrir þá sök að verið sé á lúalegan hátt að níðast alveg sérstaklega og yfirvegað á almennu lífeyrissjóðunum. Opinberu sjóðirnir hefðu allt sitt á þurru með bakábyrgð ríkisins sem almennu sjóðirnir hefðu ekki.
Hverjar skyldu nú vera staðreyndirnar í þessu máli?
1) Siðferðileg ábyrgð lífeyrissjóðanna er ótvíræð. Lífeyrissjóðirnir voru þátttakendur í útrásinni sem síðan leiddi til hrunsins. Útrásin hefði aldrei orðið að veruleika án aðkomu lífeyrissjóðanna. Ég hef enga trú á því að þeir hafi haft óhreint mjöl í pokahrorninu, en þeir vildu græða og sem bakhjarl útrásarfjárfesta þyngdu þeir verulega í þeim pundið. Lífeyrissjóðirnir bera því sína siðferðilegu ábyrgð á hruninu. Þeir fögnuðu ofsagróða og urðu einnig fyrir skelli þegar hrunið varð. Þetta þekki ég vel sem innanbúðarmaður í stærsta lífeyrissjónum, LSR um langt skeið. Þegar kallað er eftir sameiginlegu átaki alls fjármálakerfisins er fráleitt að lífeyrissjóðirnir hlaupist undan ábyrgð.

2) Agnarsmá upphæð í hinu stóra samhengi. Lífeyrissjóðunum er ætlað að borga 1,4 milljarða á ári í tvö ár til að fjármagna sérstakar vaxtabætur. Ef þetta skerðir einkaeignarréttinn, hvað þá með tugmilljarða tap af völdum  fjárfestingarspekúlasjóna. Og hvað með ákvörðun lífeyrissjóðanna að láta 0,13 % af iðgjaldi renna inn í endurhæfingarsjóð sem byggist á einkavæðingarhugsun?

3) Grafið undan opinbera lífeyriskerfinu. Fullyrðingar um að þetta bitni sérstaklega á almennu lífeyrissjóðunum en ekki hinum opinberu eru sannast sagna vafasamar þegar málin eru sett í rétt samhengi. Upphæðirnar sem um er að ræða eru agnarsmáar miðað við hreyfingar hjá lífeyrissjóðunum hvort sem var í hagnaðar- og gróðaátt þegar vel gekk eða í tapi eftir hrunið. Eftir 1. janúar 1997 eru opinberu sjóðirnir algerlega háðir iðgjöldum sem inn í þá eru greidd. Ef hins vegar iðgjöldin rísa ekki undir  réttindunum þarf að hækka þau og síðan hugsanlega lækka aftur þegar betur árar. Hægur vandi er að hafa nákvæmlega sama hátt gagnvart almennu sjóðunum. Það vilja hins vegar hvorki Gylfi né Vihjálmur; þeir leggja meira upp úr að varðveita kaupmátt launa en lífeyris. Það er sjónarmið sem er málefnalegt og virðingarvert en þetta er hins vegar val en á ekki að vera það væl sem þeir temja sér, Gylfi og Vilhjálmur, þegar lífeyrismál eru til umræðu. Þá er það ósanngjarnt að reyna stöðugt að grafa undan opinbera lífeyriskerfinu.

4) Lífeyrissjóðirnir taki þátt. Lántakendur lífeyrissjóðanna sem og aðrir lántakendur voru hlunnfarnir í verðbólgunni í kjölfar hrunsins. Lífeyrissjóðirnir sem og aðrar lánastofnanir voru hins vegar varðir með verðtryggingu og breytilegum vöxtum. Það stendur því á lífeyirssjóðina siðferðileg krafa að taka þátt í samfélagslegum herkostnaði til aðstoðar lántakendum. Spurningin stóð í reynd aldrei um að hjálpa lántakendum, heldur skila hluta þess sem oftekið var.

5) Það eru hagkvæmnisrök að aðstoða lántakendur. Niðurfærsla eða vaxtabætur styrkja til langs tíma lánastofnanir, þar með talið lífeyrissjóði. Alltof margt fólk er smám saman að komast í afborgunarvandræði. Eftir því sem greiðslugetan hins vegar  batnar, meðal annars með vaxtabóta-stuðningi, þeim mun minni verður þörf á afskriftum í lánakerfinu og þeim mun betri verður afkoma lánveitenda.

Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægar samfélagsstofnanir, fjármagnaðir með lögþvinguðum sparnaði. Ef þeir hlaupast undan merkjum og axla ekki samfélagslega ábyrgð sína eiga þeir á hættu að glata því trausti sem þeir byggja tilveru sína á.