Fara í efni

Lífeyrisbaráttan hefur skilað árangri

Birtist í Mbl
Allan þennan áratug og reyndar þann sem á undan gekk hafa verið umræður, og oftar en ekki, deilur um lífeyrismál. Því er ekki að neita að þetta hefur reynt verulega á þolrifin. Um langt skeið héldu menn sig að verulegu leyti niðri í skotgröfunum og á það ekki síst við um starfsmenn ríkis og sveitarfélaga innan BSRB og annarra samtaka opinberra starfsmanna enda var hart sótt að lífeyrisréttindum þeirra og það oft úr ólíklegustu áttum. Hafa margir séð ofsjónum yfir lífeyrisréttindum þessa fólks og hafa raddir í þá veru jafnvel komið frá samtökum launamanna. Fræg að endemum varð grein stéttarfélagsformanns þar sem grátið var yfir forréttindum félagsmanna BSRB og talað um kamapavínssjóði í því sambandi. Ekki hafa félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem komnir eru á lífeyri almennt þá fjármuni aflögu að dugi fyrir miklu kamapavíni, alla vega ekki að staðaldri. En hitt er rétt að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins býður upp á réttindi sem eru með því besta sem launafólk hefur náð fram hér á landi og ætti að vera öllu launafólki keppikefli að stefna að því sama í stað þess að grafa undan réttindabaráttu þeirra sem hér eiga í hlut.

Kjarabætur til frambúðar

Þegar líða tók á þennan áratug var sú ákvörðun tekin innan BSRB að stigið skyldi upp úr skotgröfunum og gerð gangskör að því gera breytingar á lífeyriskerfinu til frambúðar. Þetta kostaði mikla vinnu og talsverð átök. En þegar upp var staðið náðist samkomulag við fjármálaráðuneytið um breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem að dómi okkar sem komum að þessum málum fyrir hönd stéttarfélaganna var fyllilega viðunandi. Með því samkomulagi tókst að verja kjör lífeyrisþeganna auk þess sem gerðar voru ýmsra breytingar sem munu skila sér sem kjarabættur til lífeyrisþega þegar fram líða stundir.

Enn var þó ósamið við sveitarfélögin og hafur staðið í stappi við þau um nokkurt skeið. Í apríl á síðasta ári var síðan undirritað samkomulag á milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem kveðið var á um að starfsmönnum sveitarfélaganna skyldu tryggð sambærileg réttindi og þegar hafði verið samið um við ríkið í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þetta samkomulag festu aðildarfélög BSRB síðan inn í kjarasamninga sína í þeim samningum sem fóru í hönd þá um vorið. Í kjölfarið hófst síðan vinna þar sem þetta samkomnulag var útfært og lauk henni síðan með undirskrift um stofnun nýs lífeyrissjóðs sveitarfélaga fyrir fáeinum dögum.

Sveitarfélagasjóðurinn markar tímamót

Hér er um að ræða lífeyrissjóð sem tryggir starfsmönnum sveitarfélaga sem aðild eiga að samtökum okkar nákvæmlega sömu réttindi og boðið er upp á í LSR. Auk þess er boðið upp á valdeildir en Samband íslenskra sveitarfélaga lagði ríka áherslu á að upp á slíkt yrði boðið. Hér er um merkan áfanga að ræða og ljóst að grunnur hefur verið lagður að því styrkja enn lífeyrisréttindi þeirra félagsmanna BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum eða stofnunum sem þeim tengjast.

Þegar hafa mörg sveitarfélög ákveðið að gerast aðilar að hinum nýja lífeyrissjóði. Önnur kunna að taka ákvörðun um að halda óbreyttri aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en mörg sveitarfélög hafa átt þar aðild um lengri eða skemmri tíma og verður þeim eftir sem áður frjálst að halda þeirri aðild óbreyttri. Skuldbindingar sveitarfélaganna gagnvart BSRB á sínum tíma lúta fyrst og fremst að því að tryggja verðmæti réttindanna en síðan hefur atvinnurekandinn, í samráði við stéttarfélögin, um fleiri en einn kost að velja til að fullnægja þeirri skuldbindingu sem þannig gæti verið innan LSR eða hins nýstofnaða sveitarfélagasjóðs.

Þótt allt miði þetta í rétta átt er björninn ekki alls staðar unninn. Þannig hefur hvorki Landssíminn né Íslandspóstur enn sem komið er fullnægt þeim loforðum sem gefin voru á Alþingi á sínum tíma um að tryggja starfsmönnum sínum sömu réttindi eftir hlutafélagavæðingu og þeir höfðu áður búið við eða ættu kost á sem opinberir starfsmenn. Staðreyndin er sú að ekkert stendur í vegi fyrir því að þeir starfsmenn sem eru félagar í BSRB fái aðild að nýrri deild LSR þar sem greidd eru 15,5% iðgjöld af öllum launum en ávinnsla lífeyrisréttinda í þeirri deild er með því besta sem gerist í landinu. Þrákelkni stjórnenda þessara stofnana og sá ósiður ríkisstjórnarinnar að standa ekki við gefin fyrirheit er það eina sem kemur í veg fyrir þetta.

Starfsmenn Íslandspósts og Landssíma á dagskrá

Næstu mál á dagskrá á sviði lífeyrismála er að fylgja því eftir að öll sveitarfélögin fullnægi samningum um lífeyrisréttindi, annaðhvort í hinum nýstofnaða lífeyrissjóði sveitarfélaga eða LSR. Jafnframt verður gerð að því gangskör með haustinu að knýja á um bætt lífeyrisréttindi starfsmanna Íslandspósts hf. og Landssímans hf. í samræmi við gefin fyrirheit á Alþingi.

Reynslan af baráttunni fyrir lífeyrisréttindum sýnir okkur að með staðfestu og þolinmæði hefst árangur. Það hefur sannast í samningum við fjármálaráðuneytið og nú við sveitarfélögin varðandi þá félaga okkar sem þar starfa. Og hið sama mun gerast gagnvart starfsmönnum Íslandspósts og Landssímans einnig áður en upp er staðið. Með þrautseigjunni hefst það.