Fara í efni

LEYFUM JÓHANNI AÐ BORGA


Jóhann Hauksson, fréttamaður, hefur skrifað meira en flestir menn til stuðnings Icesave samningum og alltaf stutt af miklum móð þá niðurstöðu sem legið hefur fyrir hverju sinni.

Hann studdi Icesave samniginn eins og hann var lagður fyrir Alþingi í byrjun júní, síðan aftur í ágúst og loks í desember. Svo var á Jóhanni að skilja að það nálgaðist skemmdarstarfsemi að setja fyrirvara við samninginn eins og gert var áður en yfir lauk í ágústlok. Þegar Bretar og Hollendingar féllust ekki á þá fyrirvara og Alþingi tók að nýju til við málið, reis Jóhann Hauksson upp til að verja lakari útgáfuna og nú þegar í sjónmáli er betri kostur en nokkru sinni fer hann hamförum.

Í fyrsta lagi fer hann mikinn gegn þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel þótt sá ferill hafi orðið til að bæta stöðu okkar. Við sem leyfum okkur að hvetja til þátttöku og afgerandi höfnunar á samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag til að sýna viðsemjendum okkar fram á samstöðu þjóðarinnar erum sökuð um að stjórnast af annarlegum pólitískum hvötum .

Í öðru lagi reynir hann að gera lítið úr þeim ávinningi sem orðið hefur með töfinni á Icesave og kemur fram í miklu minni greiðslubyrði, að því ógleymdu að bæði ríkisstjórn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa endurskoðað afstöðu sína til gjaldeyrisforðans, vilja nú taka miklu minni lán en áður með gríðarlegum sparnaði í vaxtakostnaði í erlendum gjaldmiðli.

Öll skrif sín réttlætir Jóhann Hauksson meira og minna með því að hann sé að verja vinstri stjórn. Í mínum huga hafa fáir menn lagt eins mikið af mörkum og hann í þá veru að spilla samstarfi vinstri manna með því að túlka jafnan málefnalegan ágreining þeirra í milli á versta veg og blása hann upp í sundurlyndistali .  

Ef Jóhanni  Haukssyni líkar það illa að ná greiðslubyrðinni af Icesave niður, legg ég til að fundin verði leið til þess að hann fái að borga í samræmi við þær óskir sínar.

Ný skrif JH: http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/2010/3/2/ogmundur-stydur-hadegismoalinuna/
Morgunútvarp Rásar 2, 2. mars http://dagskra.ruv.is/ras2/4520820/2010/03/02/