Fara í efni

LEIKSKÓLINN OG LJÓÐIN

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.12.15.
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Ég heyrði litla stúlku, fimm ára gamla, syngja þetta ljóð Jónasar Hallgrímssonar fyrir ömmu sína án þess að reka nokkurn tíma í vörðurnar. Ég heyrði líka samtal þeirra að söngnum loknum. "Finnst þér þetta ekki fallegt amma? Þetta er eftir Jónas Hallgrímsson. Hann fótbrotnaði í Kaupmannahöfn þegar hann datt í stiga og þetta er kveðja heim til Íslands."

Ég spurði ömmuna hvort hún vissi hver hefði kennt barninu ljóðið og nestað það með þessum fróðleik. "Hún lærði þetta í leikskólanum, hún lærði þetta í Hagaborg."

Það er ekkert sjálfgefið að leikskólinn búi börnum uppeldi á þennan hátt. Aðrar aðferðir til fræðslu og afþreyingar geta verið auðveldari en sú að ganga með fimm ára börn inn í smiðju höfuðskálda Íslands.

Litla stúlkan söng ömmu sinni ljóðið á degi íslenskrar tungu. Sumir leikskólar hafa notað þennan dag, sem um árabil hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, til sérstaks menningarátaks og er það vel. Stundum munu einhverjir skólar hafa haft samráð sín í milli um verkefni og hef ég grun að svo kunni að hafa verið að þessu sinni. Ræð ég það af því að ég sá myndband, sem tekið var um þetta leyti, þar sem stúlka úr öðrum leikskóla  rappaði Íslandskveðju Jónasar og gerði það vel!

Hvað sem því líður þá hefur leikskólinn Hagaborg með framgöngu sinni, að mínum dómi, skipað sér í flokk öndvegis menntastofnana og leikskólakennararnir þar minnt okkur á það með verkum sínum hve mikilvægu hlutverki þeir gegna.