Fara í efni

LEIFTRANDI STJÓRNARANDSTAÐA SJÁLFSTÆÐISFLOKKS - EÐA ÞANNIG


Þeim sem tekst að halda sér vakandi yfir daufgerðum ræðuhöldum Sjálfstæðismanna á Alþingi þessa dagana, fá innsýn í harla undarlegan hugarheim. Flokkurinn sem leiddi þjóðina út í dýpsta skuldafen sem hún nokkru sinni hefur ratað í, hafnar nú öllum hugmyndum um kjarajöfnun og bjargráðum fyrir alþýðu manna. Þegar því er hreyft að betur stætt fólk leggi ögn meira af mörkum með hátekjuskatti svo hlífa megi þeim sem lítið hafa, þá reigja Sjálfstæðismenn á þingi sig og tala um skattaflokkana í Stjórnarráðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn sem öllum öðrum stjórnmálaflokkum fremur, er valdur að því hvernig fyrir okkur er komið; að við erum skuldug uppfyrir haus og þröngvað af ríkjum heims og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að skera niður jafnt í velferðaþjónustu sem öðru til að hafa upp í skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber pólitíska ábyrgð á, sá flokkur leyfir sér nú að býsnast yfir því að reynt skuli að slá skjaldborg almennnigi til varnar með réttlátari dreifingu á skattbyrðunum!
Það krefst átaks að fylgjast með málatilbúnaði Sjálfstæðismanna í Alþingi. Vissulega er engum vorkunn að fylgjast með umræðu um ranglátan málstað ef hún er skemmtilega fram sett. En pólitískum fjörkálfum Sjálfstæðisflokksins er flest betur til lista lagt en fá hlustandann til að leggja við hlustir.
Kjósendum ráðlegg ég hins vegar að fylgjast vel með málflutningi Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Sem víti tikl varnaðar. Ekkert hefur breyst. Sömu viðhorf og við höfum kynnst allar götur frá 1991 þegar hafist var handa um að svipta almenning eignum sínum og einkavinavæða efnahags- og stjórnmálalíf með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum.