Fara í efni

LAUNAFÓLK BYRJAÐ AÐ ÞJAPPA SÉR SAMAN


Fréttir berast nú af undirbúningi komandi kjarasamninga. Félög innan ASÍ eiga lausa samninga um áramótin en félög innan BSRB á komandi ári fyrir utan Póstmannafélag Íslands en samningur þeirra rennur út fyrir áramót. Kjarasamningar við ríkið eru almennt lausir 30. apríl n.k. Undantekningar þar á eru samningar Tollvarðafélagsins og Landssambands lögreglumanna sem gilda til októberloka 2008. Almennur gildistími kjarasamninga við sveitarfélögin er hins vegar til 30. nóvember 2008 en samningur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar rennur út mánuði fyrr.

Innan BSRB munu félögin þjappa sér saman á vettvangi heildarsamtakanna hvað réttindamál snertir en líklegt er að sami háttur verði á og í undangengnum samningum að um kaupgjaldsmálin verði samið í smærri einingum. Þó verður allur gangur á því. Þannig hafa 13 bæjarstarfsmannafélög innan BSRB – svokallað Samflot – ákveðið að semja saman og afgreiða samninga sem ein heild. Einn fyrir alla og allir fyrir einn, sagði Elín Björg Jónsdóttir formaður Samflots í samtali við Morgunblaðið eftir að þetta hafði verið ákveðið. Ljóst er að hvaða háttur sem hafður verður á við gerð komandi kjarasamninga að samhugur er mikill í launafólki enda fólk mjög meðvitað um mikilvægi þess að efla samstöðu og góðan liðsanda.