Fara í efni

Látum ekki NATO stýra okkur í stríð

Birtist í Mbl 
Fyrir fáeinum dögum fór fram á Alþingi umræða um viðbrögðin við hryðjuverkaárásunum á New York og Washington. Svo var að skilja á frásögnum margra fjölmiðla, sérstaklega Ríkisútvarpsins, að í umræðunni hefðu menn verið mjög á einu máli um hve ágæt framganga íslenskra stjórnvalda hefði verið. Staðreyndin er hins vegar sú að í umræðunum var mjög eindregið varað við því að við spyrtum okkur saman við NATO og létum æsingamenn innan hernaðarbandalagsins teyma okkur í þessu máli.

Um hitt eru menn að sjálfsögðu sammála að bregðast þurfi við þessum voðaverkum. Hryðjuverk eru tilræði - ekki aðeins við fórnarlömbin hverju sinni heldur við siðað samfélag. Sú eldraun sem við stöndum frammi fyrir er að bregðast þannig við að okkur takist að varðveita réttarríkið og þær grundvallarreglur um mannréttindi sem mannkynið hefur sameinast um.

Það er mikilvægt að hafa hendur í hári þeirra sem voru ábyrgir fyrir þessum voðaverkum og leiða þá fyrir alþjóðlegan rétt. Það er grundvallaratriði að þetta sé gert á vettvangi alþjóðasamfélagsins, Sameinuðu þjóðanna og að í einu og öllu sé farið að grundvallarsáttmálum um mannréttindi.

Nú kann einhver að segja að Sameinuðu þjóðirnar séu svifaseinar og búi ekki yfir þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að taka á slíkum vanda. Að vissu leyti er þetta rétt og minnir okkur á nauðsyn þess að efla öryggis- og eftirlitshlutverk SÞ. En framar öllu verður aldrei of oft á það minnt að þær aðgerðir sem gripið verður til þurfa að bera tilætlaðan árangur - og áður verðum við að leggja það skýrt niður fyrir okkur hvað það er sem við ætlum að ná fram: réttlátari og friðvænlegri heimur. Ég hef leyft mér að vara við fljótræði og þá sérstaklega við því að Íslendingar láti stríðsæsingamenn innan NATO teyma sig áfram í þessu máli.

Í fréttum höfum við orðið vitni að mjög herskáum yfirlýsingum talsmanna NATO og breska forsætisráðherrans sérstaklega. Framkvæmdastjóri NATO sagði að nú hefðu verið færðar óyggjandi sönnur á að hryðjuverkunum hefði verið stýrt af aðilum utan landamæra Bandaríkjanna - og því bæri að skilgreina þau sem árás á Bandaríkin. Við það kviknaði 5. grein NATO-samningsins sem segir að árás á eitt NATO-ríki jafngildi árás á önnur og þar með öll aðildarríki hernaðarbandalagsins.

Við þetta er sitthvað að athuga. Í fyrsta lagi kennir reynslan okkur að yfirlýsingar herstjórnar NATO og ýmissa ráðamanna í bandalagsríkjum okkar, ekki síst breska forsætisráðherrans, hafa á ögurstundu sem þessari ekki alltaf reynst traustar eins og dæmin sanna og vísa ég þar til dæmis á yfirlýsingar þessara aðila í tengslum við loftárásir NATO á Balkanskagann vorið 1999. Í öðru lagi hlýtur það að orka tvímælis að skilgreina árás með þeim hætti sem hér er gert. Þessi skilgreining þýðir að á hryðjuverkaöld standa Íslendingar nær stríði en áður og geta hæglega sogast inn í hringiðu þeirra átaka sem háð eru á heimsvísu.

Og þá skulum við hyggja að því hvað svokallaðir vinir okkar, ríkustu herveldi jarðarinnar, eru að aðhafast og hvernig þau koma fram í heiminum.

Frelsishetjur gærdagsins.

Um árabil hefur setið við völd í Afganistan stjórn talibana - ofstækistrúmanna sem beita ómældri kúgun gegn þeim sem voga sér að andæfa valdi þeirra. Heimurinn hefur verið áhugalítill um þessa kúgun að undanskildum kvennahreyfingum sem hafa verið óþreytandi að vekja athygli á illu hlutskipti kvenna undir stjórn talibana. Sú var tíðin að heimurinn hafði meiri áhuga á Afganistan. Það var undir lok áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Þá gerðu sósíalistar uppreisn gegn lénsveldi íslömsku klerkanna og í kjölfarið fóru Sovétmenn með herlið inn í landið þeim til aðstoðar. Nú var stórveldahagsmunum ógnað og hófst mikið áróðursstríð. Á meðal þeirra fréttamanna sem fóru á vettvang var undirritaður. Ég heimsótti margar búðir uppreisnarmanna - frelsisherjanna sem svo voru nefndir í fjölmiðlum í okkar heimshluta. Þeirra á meðal voru þeir, sem nú fara fram undir merkjum talibana. Nú eru þessar frelsishetjur gærdagsins réttdræpar á sama hátt og Saddam Hussein, áður vinur vesturveldanna þegar það þjónaði hagsmunum þeirra í stríðinu við Íran á níunda áratugnum. Hann var sami ódæðismaðurinn þá og hann er nú. Það eru hins vegar hagsmunir stórveldanna sem hafa breyst.

Höfum mannréttindasáttmála sem vegvísi.

Við lifum í heimi harðrar og grimmrar hagsmunabaráttu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar við stillum okkur upp eins og mér finnst íslensk stjórnvöld gera, nánast gagnrýnislaust við hlið Bandaríkjstjórnar, bresku stjórnarinnar og hernaðarbandalagsins NATO, þá fer því fjarri að um það eitt sé að tefla að verja frelsi og mannréttindi. Við erum að taka afstöðu með auðugustu herveldum jarðarinnar og þeirra málstaður hefur ekki alltaf reynst góður.

Þessi alvarlegu deilumál eiga heima í öðrum farvegi en hjá hernaðarbandalginu NATO. Þau eiga heima á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sem vegvísi eigum við að hafa þá mannréttindasáttmála sem mannkynið hefur komið sér saman um.