Fara í efni

Látum auga heimsins hvíla á Palestínu

  Lengi hef ég ætlað að setja niður nokkur orð um Rachel Corey. Hún var tuttugu og þriggja ára gömul þegar hún var myrt af ísraelskum hermönnum. Morðið var framið á yfirvegaðan og kaldrifjaðan hátt. Þessi unga stúlka, sem var einlægur friðarsinni, vildi koma í veg fyrir að hús palestínskrar fjölskyldu yrði jafnað við jörðu. Hún stóð í vegi fyrir jarðýtunni sem var notuð til þess verknaðar. Fyrst var hent braki og jarðvegi yfir stúlkuna og þegar hún féll til jarðar var ýtt yfir hana, handleggir og fótleggir brotnuðu og höfuðkúpan brákaðist. Hún lést skömmu síðar. Þetta gerðist 16. mars síðastliðinn.

Þessi atburður rifjast nú upp þegar frásagnir berast af ofsóknum á hendur fólki úr sömu samtökum, (GIPP/ISM, Grassroots International Protection for Palestinians/ International Solidarity Movement). Þannig var ung bandarísk kona tekin til yfirheyrslu um síðustu helgi. Hún starfaði að fréttamiðlun fyrir ISM. Konan lýsir ISM samtökunum, Alþjóðlegu samstöðuhreyfingunni, sem friðarsinnum, sem hvorki séu háðir Palestínumönnum né Ísraelsmönnum. Sjálf leggur hún áherslu á að hún sé gyðingur.  En í anda samtakanna sem hún vinni fyrir vaki það eitt fyrir henni að stuðla að friði og efla mannréttindi. ( meðfylgjandi er vefslóð ISM http://www.palsolidarity.org/ )

Eðlilegt er að spyrja hvers vegna þetta fólk sé slíkur þyrnir í auga ísraelskra yfirvalda sem raun ber vitni. Skyldi það vera vegna þess að það er auga heimsins; að það færir umheiminum sýn á það sem er að gerast? Staðreyndin er sú að vitnin á staðnum eru áhrifaríkust. Ég hvet fólk til að kynna sér skrifin á frábærri heimasíðu félagsins Ísland-Palestína: www.palestina.is. Þar gefur að líta mjög áhrifarík skrif fólks sem farið hefur á vettvang og sjálft kynnst þeirri kúgun sem Palestínumenn eru beittir.

Á þessari heimasíðu er til dæmis að finna grein eftir Evu Líf Einarsdóttur frá 17. janúar s.l.. Þar segir m.a.:  „Því lengri tíma sem ég dvel hér, því meira er ég að kynnast fólki, fólki sem er búið að upplifa hluti sem eru okkur svo fjarlægir…maður hefur fylgst með atburðum í fjölmiðlum en þegar maður er staddur hér þá finnst mér eins og ég sé virkilega að skilja (og ekki) hvaða hörmungar eru í gangi …..Ímyndaðu þér að í kringum alla Reykjavík séu eftirlitsstöðvar hermanna … að þú sem býrð í Kópavogi mátt ekki fara að heimsækja ættingja þína í Reykjavík.… að í fyrrasumar þurftir þú og fjölskyldan þín að híma heima í 30 daga með lítinn sem engan mat, og að horfa á sjónvarpið er engin dægrardvöl því það eina sem þú sérð eru myndir af fólki, börnum sem þú jafnvel þekkir, dáið eða sært, því einhver hefur ákveðið að útgöngubann ríki.… að þegar þú ferð í háskólann þarftu að fara í gegnum eftirlitsstöð þar sem byssum er beint að þér úti um allt, að sýna skilríki um hver þú ert og láttu þér ekki bregða þótt þú verðir auðmýkt/ur á allan hátt af þessum hermönnum.… þú þarft að fara út í búð, þú og maðurinn þinn með tveggja mánaða barn og þið eruð stoppuð, úti er myrkur og hermennirnir segja manninum að koma út og labba med þeim fyrir horn … þar afklæða their manninn og láta hann liggja á jörðinni í 3-4 tíma … þú og barnið bíðið í bílnum og vitið ekki neitt … og svo sleppa þeir honum, hlæjandi …… að hermenn ráðist inn á heimili þar sem móðir og börn eru heima … hermennirnir taka níu ára barn inn á klósett, setja það ofan í baðkarið, sprauta köldu vatni yfir það um leið og byssum er beint að höfði barnsins en þeir vilja vita hvar faðirinn er … sem barnið veit ekki … hermennirnir fara síðan og segjast koma fljótlega aftur og gera það sama … barnið getur lengi vel ekki talað eða gert sínar klósettþarfir eftir þetta …Þetta er eitthvað sem á beinan eða óbeinan hatt hefur hent fólkið sem ég bý hjá hér í Ramallah … þetta sjáum við kannski ekki í sjónvarpinu en þetta er hræðilegt! Ástandið er ekki gott … ekki neinsstaðar í Palestínu … og það verður það ekki fyrr en þessum mannréttindabrotum, drápum og viðbjóði linnir! Þótt ótrúlegt sé þá getur ein venjuleg manneskja eins og ég gert mikið fyrir palestínska fólkið, það finn ég, við úti í heimi gefum þeim von með okkar stuðningi og hann er hægt að sýna með ýmsu móti.“

Eftir morðið á Rachel Corey birtu foreldrar hennar bréf sem hún sendi þeim eftir að hún var komin til Palestínu. Hún veltir upp þeirri spurningu hvort börnin sem svipt hafi verið æsku sinni geti fyrirgefið heiminum þegar það rennur upp fyrir þeim að þetta er á ábyrgð okkar allra.: „I wonder if you can forgive the world for all the years of your childhood spent existing--just existing—in resistance to the constant stranglehold of the world´s fourth largest military--backed by the world's only superpower--in it's attempt to erase you from your home.  That is something I wonder about these children.  I wonder what would happen if they really knew.“

Rachel Corey sagði í bréfi sínu til foreldranna að það yrði gefandi fyrir heimabæ þeirra Olympíu í Washingtonríki að taka upp vinabæjarsamband við bæ í Palestínu. Gæti þetta ekki átt við um Reykjavík? Ég auglýsi eftir viðbrögðum við þessari hugmynd.

Hér er að finna frásögn á ensku sem vitnað er til hér að ofan: