Fara í efni

LÁNTAKENDUR, HÁTTVIRTIR OG SPILAVÍTI Á BYLGJUNNI

Bylgjan í bítið 2 rétt
Bylgjan í bítið 2 rétt

Í morgun mætti ég ásamt Brynjari Níelssyni, alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, í morgunþátt Bylgjunnar, Í Bítið, að ræða það sem efst er á baugi þessa dagana.
Fyrir valinu varð að ræða hugmyndir sem fram hafa verið settar um að loforð ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfærslu muni skapa stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Ef ekki verði staðið við loforðin megi búast við skaðabótakröfum á hendur ríkissjóði. Ég tel þetta vera út í hött. Ef ríkisstjórnin ekki stendur við sitt á hún að segja af sér hið bráðasta og efna til kosninga. Svikin ætti með öðrum orðum að útkljá í kosningaklefanum en ekki í dómssalnum. Um þetta fjallaði ég í pistli hér á heimasíðunni í gær.
Þá var fjallað um hina „stórpólitísku" baráttu Pírata fyrir afnámi titlatogs á Alþingi. Þar er að mínu mati verið að gera stórmál úr smámáli. Sjálfur hef ég enga samúð með þessu baráttumáli Pírata og finnst sannast sagna hálf vesælt að nota deilu um form til að slá pólitískar keilur.
 Það var ekki fyrr en við komum að spilavítunum sem við Brynjar Níelsson urðum fyrst verulega ósammála. Hann vill engar hömlur á spilavíti en ég vil hömlur. Rætt var um óafgreitt frumvarp mitt um þetta málefni. Frumvarpið byggði á áralangri vinnu og samráðsferli sem byggja má á ef vilji er  fyrir hendi. Ef hins vegar viðhorf Brynjars Níelssonar verða ofan á í þinginu er ekki ástæða til bjartsýni. En ég er bjartsýnismaður og málstaðurinn er góður og knýjandi. Þess vegna verður áfram barist. Nú liggur öll grunnvinna fyrir og tillögur um markvissar úrbætur.
http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20968