Fara í efni

LANGAVITLEYSA Á LEIÐ Á LÖNGUSKER?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.09.22.
Eftir tvö glæný eldgos á Reykjanesi og vangaveltur eldfjallafræðinga um að nú sé hafið langvinnt tímabil eldsumbrota þar, virðist hilla undir að starfsnefnd um flugvöll í Hvassahrauni á þessu sama Reykjanesi ljúki störfum.
Almennt er ekki deilt um ágæti alþjóðaflugvallarins á Miðnesheiði; heiðin talin örugg og mikið svæði þar til útvíkkunar. Hættan sem þarna steðjar að þykir með öðrum orðum ekki vera staðsetning sjálfs vallarins heldur sá möguleiki að eldsumbrot annars staðar á Reykjanesi kunni að skera á samgönguæðar. Þetta er náttúrlega nokkuð sem enginn getur vitað um með vissu á virku edlfjallasvæði. En ekki má gleyma því að sama áhætta varðandi samgöngurnar er víða annars staðar hér á landi þar sem rætt hefur verið um nýtt flugvallarstæði.

En hvað um framtíð Reykjavíkurflugvallar? Gosin á Reykjanesi hafa óneitanlega sett þá umræðu í nýtt samhengi. Margir hafa lengi talað fyrir því að flytja allt flug á suðvesturhorninu til Keflavíkur. Aðrir hafa séð ýmsa kosti við að hafa kjarnann í innanlandsfluginu nær miðju höfuðborgarinnar þótt hluti innanlandsflugsins kunni með tímanum að færast til Keflavíkur samhliða því að utanlandsflug færist í auknum mæli annað á landinu eins og nú er að gerast. Eldgosin hafa sennilega heldur styrkt stöðu þeirra sem vilja hafa bæði Reykjavíkurflugvöll til innanlandsflugs og alþjóðavöll í Keflavík.

En hvar á Reykjavíkurfugvöllur að vera staðsettur, það er að segja ef á annað borð ætti að flytja hann?
Hólmsheiðin var í nefnd í nokkur ár eða þar til nálægð við vatnsból og erfiðir vindstrengir ýttu henni út af borðinu; Hvassahraun hafa menn nú verið minntir á að er nákvæmlega það sem nafnið segir, hraun sem þá einhvern tímann hefur runnið í eldgosi.

En hvað með að halda á sjó út? Hugmyndin um flugvöll á uppfyllingum á Lönguskerjum í Skerjafirði hefur nú að nýju dúkkað upp.
Á arkitektamyndum virkar þetta aldeilis frábærlega, flugvélar að renna sér inn á braut á fögrum spegilsléttum Skerjafirðinum, allir kostir Vatnsmýrinnar til staðar, nálægðin við stjórnsýslu, þjónustu og spítala, að því ógleymdu að sjálfsögðu að Lönguskerjaflugvöllur yrði borgarstjórninni frelsun. Vitað er að henni er það sáluhjálparatriði að losna við flugvöllinn og rýma þar fyrir byggð.

Flugvöll eða byggð, spurði einn helsti talsmaður borgarstjórnar í skipulagsmálum nýlega og kvað einsýnt að lýðræðislegur vilji væri fyrir lokun vallarins. Þetta þótti mörgum skjóta skökku við því að árum saman hafa skoðanakannanir sýnt að yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa hefur verið fylgjandi flugvelli í Vatnsmýrinni. Við nánari lestur kom í ljós að talsmaður borgarstjórnarmeirihlutans hafði byggt á höfðatalningu pólitíkusa innandyra í Ráðhúsinu en ekki þeirra sem eru utandyra og byggja borgina!

En látum þetta liggja á milli hluta og líka hugmyndir sem kynntar hafa verið um byggðina. Get ég þó ekki stillt mig um að láta þess getið að fyrir nokkrum árum var haldin sýning á verðlaunatillögum hjá borginni. Sýningargestir voru þögulir en augljóst var að öllum var brugðið við að sjá hve þétt og óaðlaðandi fyrirhuguð byggð væri.

Nú eru nokkur ár liðin og völlurinn enn á sínum stað. En byggðin er tekin að rísa eins og sjá má á Valsreitnum, sannkölluðu draumalandi verktakans og móttakanda fasteignagjalda en martröð sólargeislans.

Og áfram mallar langavitleysan nema heldur gerist hún ískyggilegri því að varla yrði um að ræða litla netta uppfyllingu á Lönguskerjum fyrir eina flugbraut. Og jafnvel þótt svo væri yrði brautin að vera vel breið og rísa talsvert yfir sjávarborðið eða hafa menn gengið Ægisíðuna eftir ofsarok í flóði? Þá þekur þang og annað sem skolast hefur á land túnflatirnar langt upp af fjörunni. Ég hef grun um að landfylling á Lönguskerjum myndi á endanum leiða til malbikunar Skerjafjarðar eins og hann leggur sig. Það yrði einfaldlega enginn Skerjafjörður eftir. 

Skerjafjörðurinn er náttúruperla. Það er gaman að fylgjast með sjósundfólkinu sem nú má iðulega sjá í Grímstaðavörinni. Þar var komið með rauðmagann og grásleppuna að landi þegar ég var barn og gleður það mig að sjá einn gömlu kofanna þar enduruppgerðan, hafi borgin þökk fyrir. Nú bíðum við eftir bátunum. Austar er Sundskálavík þar sem talað hefur verið um lengingu flugbrautar sem vonandi verður aldrei af. Þar voru þegar best lét sundklefar fyrir tugi sundfólks. Þarna lærði móðir mín og mörg börn á Grímsstaðaholtinu sundtökin og þarna er líka Þormóðsstaðavör. Þaðan reri afi minn til fiskjar á öldinni sem leið.
Eins og ráða má af þessu er ég ekki alveg hlutlaus þegar Ægisíðan er annars vegar. Og handan fjarðar, á Álftanesinu, er æðarkollan og annað fjölbreytt fuglalíf.
 
En þyki tilfinningarök mín og annarra ekki marktæk mætti ef til vill nýta loftslagsvísindin.
Er ekki fullyrt úr þeirri átt að búast megi við hækkun sjávarborðsins og þá fyrr en síðar?