Fara í efni

Landsvirkjun og upplýsingin

Birtist í Mbl
Í Morgunblaðinu 4. ágúst síðastliðinn er greint frá því að kostnaður Landsvirkjunar vegna virkjana á Austurlandi hlaupi nú á liðlega fjórum milljörðum. Í frétt Morgunblaðsins er ekki sundurgreint hvernig þessi kostnaður hefur orðið til eða hver upphæðin væri ef fjármagnskostnaður væri að fullu reiknaður. Ljóst er þó að hér er bæði um beinar verklegar undirbúningsframkvæmdir að ræða og rannsóknarvinnu.

Í umræddri frétt Morgunblaðsins er vitnað í upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar sem gerir mikið úr rannsóknarþættinum. Hann sé mjög verðmætur enda um að ræða mjög umfangsmiklar rannsóknir „ekki bara á vatnafari og möguleikum á virkjun heldur líka umhverfisþáttum, náttúru, ferðamennsku, dýralífi, kortagerð o.s.frv.“

Nú hefur það gerst að Skipulagsstofnun hefur kveðið upp þann úrskurð, bæði með hliðsjón af rannsóknum sem Landsvirkjun hefur látið gera og í ljósi eigin athugana og annarra aðila, að áform Landsvirkjunar gangi ekki upp. Skyldi maður ætla að Landsvirkjun, sem stærir sig af mikilvægi rannsóknarvinnu og vísindalegum vinnubrögðum, myndi nú leggja við hlustir, bæði af virðingu fyrir fagmannlegri vinnu og einnig af virðingu fyrir peningalegum verðmætum. Kostnaður sem talinn er í milljörðum króna skiptir nefnilega máli í þjóðfélagi þar sem peningar vaxa ekki á trjánum. Nei, því er nú öðru nær. Fjármálastjóri Landsvirkjunar, Stefán Pétursson, kemur fram á ritvöllinn eina ferðina enn og spyr í forundran í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst hvers vegna í ósköpunum lífeyrissjóðirnir og þá sérstaklega LSR, þar sem undirritaður gegnir stjórnarformennsku, séu ekki á fullri ferð að kanna fjárhagslegan grundvöll þeirra sömu áforma og Skipulagsstofnun hefur nú ýtt út af borðinu. Eftirminnilegt er þegar fjármálastjórinn spurði nýlega á opinberum vettvangi hverju það eiginlega sætti að menn vildu bíða eftir nauðsynlegum leyfum til þess að búa í haginn fyrir framkvæmdir við Kárahnjúka. Nú þegar áformum Landsvirkjunar hefur verið hafnað leyfir fjármálastjóri Landsvirkjunar sér að láta eins og ekkert hafi í skorist og ítrekar þessi viðhorf sín í grein sem hann gefur heitið „Upplýst afstaða.“

Það er greinilega pottur brotinn hjá Landsvirkjun, annars vegar virðingarleysið fyrir úrskurði Skipulagsstofnunar og hins vegar virðingarleysi gagnvart þeim fjármunum sem Landsvirkjun er treyst fyrir. Það er ekki að undra að mönnum með þessi viðhorf gangi illa að skilja lífeyrissjóði sem setja það í forgang að stefna ekki í tvísýnu þeim fjármunum sem þeim er treyst fyrir. Það kalla ég upplýsta afstöðu. Hennar er saknað hjá talsmönnum Landsvirkjunar nú um stundir.