Fara í efni

LANDAMÆRI REIKNILISTAR OG STJÓRNMÁLA


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.08.21.
Gunnar heitinn Birgisson kom víða við á allt of stuttum lífsferli sínum. Hann var bæjarstjóri, alþingismaður og verktaki og fleiri störfum gegndi hann um dagana. Hann var atkvæðamikill hvar sem hann fór. Þegar verktakinn GB lagði í framkvæmd allan sinn þunga, sem var talsverður, þá máttu menn vita að undan honum gengi. Á vettvangi stjórnmálanna tók hann sitt hlutverk einnig alvarlega og lagði kapp á að afkasta miklu og gera vel.

Um skeið sátum við saman á þingi. Gunnar var jafnframt bæjarstóri í Kópavogi. Einhverju sinni ræddum við um framkvæmdir á vegum hins opinbera. Ég sagðist taka eftir því að gagnstætt ýmsum öðrum bæjarstjórum virtist mér hann vilja fara varlega í að fela verktökum að reisa og reka stofnanir sveitarfélagsins í einkaframkvæmd. Ég sæi ekki betur en hann vildi að bæjarfélagið sjálft ætti húsnæðið sem hýsti starfsemi þess og annaðist reksturinn sjálft. Væri rétt tekið eftir, spurði ég Gunnar. Hann kvað svo vera. En þú ert bæði markaðshyggjumaður og sjálfur úr verktakabransanum, hélt ég áfram, hverju sætir?
Í auga Gunnars Birgissonar sá ég bregða fyrir glimti. Þú hittir naglann á höfuðið, sagði hann og hló við, ég er bisnissmaður, ég læt ekki plata mig.

Þetta hefur mér oft orðið tilefni til hugleiðinga. Þær hafa verið á þennan veg: Menn skipa sér í fylkingar í stjórnmálum til hægri og vinstri á mismunandi forsendum. Þær geta verið hagsmunatengdar, hvað komi sér best fyrir þá sjálfa eða þá aðila sem þeir bera fyrir brjósti. Það gætu verið öryrkjar eða lágtekjufólk  eða á hinn  bóginn fjárfestar og bisnissmenn. Þetta er hagsmunatengd pólitík.

En svo geta menn tekið afstöðu í stjórnmálum algerlega ótengt slíkum hagsmunum, einfaldlega horft til þess hvað þeir telji að gagnist best heildinni, samfélaginu. Vinstri maðurinn vill leggja áherslu á samstarf og samvinnu, sameiginlegt eignarhald og sameiginlegan rekstur á því sem sameiginlegt er. Hægri maðurinn, á hinn bóginn, telur að samkeppni gagnist heildinni best; að þegar upp er staðið komi í ljós að ódýrara sé, og þar af leiðandi hagkvæmara, að fela einkaaðilum að starfrækja opinbera þjónustu, reisa undir hana húsnæði, eiga það og reka.

Ef við nú gefum okkur að fyrir hægri manninum og vinstri manninum vaki ekkert annað en að gera það sem hagkvæmast er fyrir okkur öll – okkur sem samfélag - er þá ekki komið að því að við grípum til reiknistokksins?

Mér hefur oft komið þetta í hug, nú síðast þegar ég las í Morgunblaðinu fyrir skömmu að ríkið væri að láta reisa mikið hús undir starfsemi á þess vegum við Katrínartún í Reykjavík. Hugmyndin væri hins vegar ekki sú  að ríkissjóður eignaðist húsnæðið heldur greiddi verktakanum leigu í heila þrjá áratugi. Leigan yrði þá talin í allmörgum milljörðum.

Ekki tók ég eftir því hver verktakinn er. Man ég þó að það var ekki móðir Teresa eða yfirleitt nokkur góðgerðastofnun. Að öllum líkindum var þetta fjárfestir sem ætlar að fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Og þá skulum við reikna, setja okkur í stellingu binissverktakans Gunnars Birgissonar og spyrja einfaldrar spurningar: Borgar þetta sig?

Ég tók eftir því að nýja húsið á meðal annars að hýsa skattinn og fjársýsluna. Þar kunna menn að reikna hefði ég haldið. Finnst mönnum þar á bæ þetta vera í lagi? Og er ríkisstjórnin öll sammála? Ekki bara með hliðsjón af hægri pólitík og vinstri pólitík heldur einföldum reikningi með plúsum og mínusum og margföldun.
Hefur Skúli Eggert ríkisendurskoðandi verið spurður álits?