Fara í efni

LAGARÁÐSTEFNA Í PÉTURSBORG UM ÖRYGGI - OKKAR ALLRA

Petursborg 1
Petursborg 1


Síðari hluta liðinnar viku sat ég alþjóðlega lagaráðstefnu í Pétursborg í Rússlandi (Legal International Forum). Samankomnir voru hátt á annað þúsund lögfræðinga, stjórnmálamanna, háskólakennara  og annarra sem áhuga hafa á hinni alþjóðlegu lagaumgjörð og snertiflötum einstakra ríkja við hana. Þessi  ráðstefna er áhugaverð og mikilvæg fyrir margra hluta sakir, einkum þar sem hér fara fram umræður um samspil laga og mannréttinda sem mér finnst að sem flestum - helst öllum ríkjum -  beri að taka þátt í.

FULLTRÚAR  STÓRVELDA OG ALÞJÓÐASAMTAKA

Ráðstefnan hófst á yfirliti sem dómsmálaráðherra Rússalands, Alxeander Konovalov, gaf ráðstefnunni  um hvernig rússneskt lagaumhverfi væri að þróast. Síðan flutti forsætisráðherra Rússlands, Dimitri Medvedev, erindi af svipuðum toga en þó með víðtækari skírskotun til alþjóðaumhverfisins en allir voru greinlega vel meðvitaðir um að til staðar voru fulltrúar allra helstu stórvelda heimsins.
Næst kom innlegg frá sjö aðilum,  Eric Holder, dómsmálaráherra  Bandaríkjanna, Wu Aiying, dómsmálaráherra Kína, Kenneth Clarke, dómsmálaráðherra Bretlands, Anton Ivanov, forseti rússneska dómstólsins á sviði  verlsunar og viðskipta, Eric Bergsten fyrrverandi framkvæmdastjóri United Nations Commission on International Trade Law, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um alþjóðaviðskiptalög , Jean-Paul Decorps, forseti The International Union of Notaries (lögbókenda), Vincent Lamanda, forseti Court de Cassation, Hæstaréttar Frakklands (í einkamálum og sakamálum).

ÞAÐ SEM KENNT ER OG LÆRT, ER FAST UNDIR TÖNN!

Það sem mér þótti merkilegast koma út úr þeirri umræðu sem fram fór á þessum fyrsta hluta ráðstefnunnar var hverning það virtist álit margra að þróun alþjóðlegrar lagaumgjarðar væri torvelduð af mismunandi lagahefðum. Þar var ekki síst vísað til hinnar engilsaxnesku lagahefðar (common law) sem hefði þróast með skírskotun til fordæma og fyrirmynda frá liðinni tíð (precedent) og hins vegar lagahefðar frá Rómarrétti  sem þróast hefði á meginlandi Evrópu og byggði á löggjöf og reglugerðum (statutes).
Ríkjum hinnar engilsaxnesku lagahefðar væri erfiðara að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem byggir á gerð alþjóðalaga, enda hugsunin að baki alþjóðalagakerfinu önnur. Þar væri byggt á samningum sem mörkuðu afdráttarlaus þáttaskil.
Þá var bent á hve mismundi hefðir innan þjóðfélaga hefðu áhrif. Eric Bergsten benti til dæmis á að í Bandaríkjunum og Evrópu væru mjög ólík viðhorf til einkalífs og upplýsingasöfnunar um einstaklinga. Bandaríkjamönnum þætti margt sjálfsagt í þeim efnum sem íbúar Evrópu myndu aldrei þola. Velti hann því upp hvort þetta væri tilkomið vegna ólíkrar sögu þessara svæða, Bandaríkjanna sem lands aðkomufólks víða að með ólíkan bakgrunn, Evrópu sem hefði upplifað harðstjóra og persónueftirlit. Sjálfum þykja mér alhæfingar af þessu tagi alltaf varasamar þótt þær kunni að hafa að geyma mikilvæg sannleikskorn. Og þau korn geta vissulega verið mikilvæg!
Einnig kom það sjónarmið fram að menntahefðir okkar gætu staðið framförum fyrir þrifum. Eric Bergsten sem hélt þessu fram, kvaðst sjálfur hafa verið lagaprófessor og þekkti af eigin raun hve íhaldsamir menn gætu orðið í menntastofnunum. Kenndum eða lærðum lögum væri erfitt að breyta („Tought law is tough law"). Lögfræðingar sem ynnu með löggjöfina væru opnari fyrir lagabreytingum en hinir sem þyrftu ekki að framkvæma lögin.

SAGÐI EKKI ALLT - EN NÆSTUM ÞVÍ

Frakkinn Jean-Paul Decorps vék að því í pallborðsumræðunum að tekjur stærstu glæpasamtaka væru meiri eða alla vega á borð við tekjur franska ríkisins. Tími væri kominn til að spyrja þegar dýrmætar samfélagseiginir væru keyptar - hvaðan peningarnir væru fengnir til kaupanna.
Þetta kom svo aftur upp í hugann á málstofu um einkaframkvæmd sem efnt var til á öðrum degi ráðstefnunnar. Til þátttöku í henni höfðu verið valdir Rússar og Bretar,  allir hlynntir einkaframkvæmd enda margir þátttakendur í slíkum ferlum sjálfir. Lítil gagnrýni kom fram í umræðunum , sem ég tók þess vegna  að mér úr sæti mínu. Af þessu spruttu hinar fjörugustu umræður. Umhugsunarvert þótti mér að þarna voru einvörðungu boðnir fulltrúar og talsmenn einkaframkvæmdar, einnar mestu loddarabrellu síðari tíma, til að ræða við þau sem eru arftakar mesta kredduveldis heims á síðari tímum. Þar á ég að sjálfsögðu við gömlu Sovétríkin, sem byrjuðu vel, með byltingu fólks gegn óheyrilegu  misrétti sem birtist okkur nútímanum í gulli skrýddum híbýlum frá fyrr tíð; fólks sem síðan varð fórnarlömb kerfiskalla og kellinga allra tíma, þeirra sem stela öllum byltingum og éta öll börn þeirra. Það fólk er á vappi í öllum stjórnmálaflokkum í öllum löndum á öllum tímum. Einkaframkvæmdina kalla ég kreddu, því hún hefur reynst skattborgaranum dýr en gagnrýni á hana á sjaldnast upp á pallborðið - hún er hluti af trúarbrögðum dagsins í dag, hugmyndafræðin sem sögð er rétt þótt margsýnt sé fram á að hún virki ekki. Ég sagði ekki þetta allt - en næstum því.  

EKKI GLEYMA GUANTANAMO OG TÍBET

Sjálfur var ég þátttakandi á fyrsta degi  í pallborði  um öryggismál. Pallborðinu stýrði, Anton Ivanov, dómsmálaráðherra Rússlands. Í mínu upphafsinnleggi fjallaði ég um öryggismál í víðum skilningi og mikilvægi þess að samtvinna jafnan öryggismál mannréttindum. Grundvallaratriði væri að byggja á trausti á milli samféalgsins og þeirra sem önnuðuðust hvers kyns öryggisgæslu. Umræður spunnust síðan um hvort núningur væri á milli réttarríkis og mannréttinda. Ekki könnuðust þátttakendur í pallborði almennt við það. Ég leyfði mér að segja að við yrðum að vera heiðarleg í þessu mati. Í mínum huga hlyti annaðhvort eitthvað að vera að skilgreiningu  á réttarríki eða þeim skilningi sem lagður væri mannréttindi ef fulltrúar Bandaríkjanna gætu haldið því fram að þarna væru engar brotalamir, þrátt fyrir Guantanamo fangabúðirnar þar sem föngum hefði verið haldið árum saman án dóms og laga, eða fulltrúar Kína með Tíbet undirokað og allar skýrslur Amnesty International á bakinu sem gagnrýndu alvarleg brot á mannréttindum í Kína, eða Rússar þar sem miklar ásakanir væru uppi um brot á manréttindum innan vébanda þeirra ríkis. Í framhaldinu var spurt úr sal um vantrú á lögreglu og réttarkerfi - sem væri landlæg í Rússlandi. Af þessu urðu nokkrar umræður sem voru  jákvæðar og uppbyggilegar og gengu út á mikilvægi opinnar umræðu. 

ÖRYGGI ALLRA

Inn í þetta fléttuðust líka umræður út frá upphafsorðum mínum um að öryggi borgaranna þyrfti að skoðast í víðu samhengi, ekki aðeins öryggi ríkja heldur einnig - og ekki síður - einstaklinga innan samfélagsins, á heimilinu og á vinnustaðnum. Ofbeldi á þessum stöðum væri því tilræði við öryggi samfélagsins. Þetta hlyti að vera mergurinn málsins.

RÚSSAR  EIGA LOF SKILIÐ

Gestgjafar þessarar áhugaverðu ráðstefnu eru Rússar sem áður segir og eiga þeir lof skilið fyrir framtak sitt. Fyrir það skal þakkað. 

Sjá ennfremur:
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28067
http://smugan.is/2012/05/ogmundur-jonasson-hofum-fundid-kaldan-andardratt-spakaupmanna/
http://mbl.is/frettir/innlent/2012/05/19/mannrettindi_og_oryggismal_raedd/
Petursborg II mai 2012
Dómsmálaráðherrar Bretlands, Rússlands og Íslands, aðstoðardómsmála-
ráðherra Bandaríkjanna og skrifstofustjóri í þýska dómsmálaráðuneytinu.