Fara í efni

Lækningasamkomur í Smáralind og Kuskið á hvítflibbanum

Séra Örn Bárður Jónsson er með skemmtilegri pennum þessa lands og Það sem meira er, hann er óhræddur að segja hug sinn, einnig um umdeild mál. Um miðjan janúar hélt séra Örn Bárður magnaða og eftirminnilega ræðu á Lækjartogi gegn stríði og í þágu friðar en tilefni fundarins voru stríðsáform Bandaríkjastjórnar gegn Írak. Það var einmitt á fjöldafundi gegn þessum sömu stríðsáformum sem ég hitti séra Örn Bárð síðastliðinn laugardag. Við tókum tal saman. Ég sagði að mér lægi forvitni á að vita hvaða augum hann liti lækningasamkomurnar sem haldnar voru í Smáralind nýlega og landlæknir hefur gagnrýnt. Séra Örn Bárður nefndi m.a. hættuna á því að trúarhugtakið kynni að hafa vera rangtúlkað af hálfu þeirra sem stóðu að samkomunum. "Þannig biður Þjóðkirkjan fyrir sjúkum en auglýsir ekki lækningar". Í framhaldinu spurði ég út af hvaða texta hann myndi leggja í Neskirkju daginn eftir. "Það verður talentan og ávöxtun hennar", svaraði séra Örn Bárður, "og ætli ég víki ekki að því sem er að gerast í okkar samtíma tengt þessum hugtökum". Þetta þótti mér hvort tveggja áhugavert og bað séra Örn Bárð að setja niður nokkrar línur til útskýringar en afraksturinn myndi ég setja undir liðinn frjálsir pennar á heimasíðunni minni. það hefur nú verið gert. Þar er nú hægt að lesa um bæði Lækningasamkomur í Smáralind og Kuskið á hvítflibbanum.