Fara í efni

KVÓTANN Í ÞJÓÐAREIGN TAFARLAUST


Á mánudag var ríkisstjórninni veitt heimild til að taka yfir alla fjármálastarfsemi landsins til að forða þjóðinni frá gjaldþroti. Því miður var seint í rassinn gripið. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur beint þeirri hvatningu til okkar að  örvænta ekki hvernig sem færi. Hún vissi ekki betur en fiskurinn synti enn í sjónum. Þetta eru grundvallarsannindi. Spurningin er hins vegar hvar eignarhaldið á kvótanum liggur eftir þá gjaldfþrotahrinu sem nú ríður yfir. Lögum samkvæmt á eignarhaldið á sjávarfanginu að vera hér innan lands og samkvæmt öðrum lögum er þjóðin endanlegur eigandi auðlinda hafsins. Fiskkvótinn  hefur hins vegar gengið kaupum og sölum og verið veðsettur eins og við þekkjum. Hvar liggja veðin?  - hjá gjaldþrota bönkum. Nú er lag að koma öllum kvótanum kirfilega fyrir í höndum þjóðarinnar. Ef einhver hefur efast um mikilvægi þess að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar þá ættu atburðir síðustu daga að hafa eytt þeim efa. Því miður gleymdist að taka af öll tvímæli með lagasetningunni á mánudag um að ríkisstjórninni væri skylt að þjóðnýta kvótann þegar í stað. En úr því má bæta.