Fara í efni

KÚRDARNIR KOMA


Birtist í Morgunblaðinu 03.01.19.

Á fyrri hluta árs 2014 heimsótti ég Diyarbakir í suðaustanverðu Tyrklandi, borg sem almennt er litið á sem höfuðborg tyrkneska Kúrdistan og er hún kölluð Amed á kúrdísku. Til skamms tíma var hvorugt þó til, hvorki Kúrdistan né tungumál Kúrda, samkvæmt skilningi yfirvalda í Tyrklandi. 

Svo er enn hvað landfræðiheitið Kúrdistan áhrærir en hvað tungumálið snertir þá eru menn ekki lengur fangelsaðir fyrir að tala kúrdísku en örfá ár eru liðin frá því að málið var viðurkennt þótt ekki njóti það jafnræðis á við tyrknesku og mönnum leyfist alls ekki að tala málið á tyrkneska þinginu.

Þíðuskeið 2013-15

Takmarkaðri viðurkeninngu á tungumálinu fylgdi tveggja og hálfs árs tilraun til sátta á milli tyrkneskra stjórnvalda og baráttusveita Kúrda á árunum 2013 til 2015. Þetta þíðuskeið í samskiptum leiddi til þess að pólitísk barátta Kúrda fékk á sig friðsamlega mynd sem leiddi til kosningasigra þeirra en þá jafnframt ósigurs fylgismanna Erdogans, forseta landsins. Kúrdar fengu 13,12% í þingkosningum í júní árið 2015 en forsætisráðherrann missti þá meirihluta sinn. Í borgum og bæjum var framgangur lýðræðisfylkingar Kúrda, HDP-flokksins, mikill og komst flokkurinn til valda í fjölda borga og bæja í suðausturhluta Tyrklands, og vel að merkja, trúir stefnu sinni um jafnrétti kynjanna voru borgarstjórarnir þar sem flokkurinn réð, alltaf tveir, karl og kona.

Svo hófst ofbeldið fyrir alvöru

Við svo búið sleit Erdogan friðarferlinu og hóf að nýju vopnaða baráttu gegn Kúrdum. Við það vænkaðist hans hagur á nýjan leik. Harðlínuöflum á báða bóga óx þá fiskur um hrygg.
Í marsmánuði árið 2014, þegar ég kom til Diyarbakir, hafði blasað við mér falleg borg, einkum hinn sögufrægi hluti borgarinnar, Sur, sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu mælt fyrir um að skyldi vera verndað minjasvæði.
Þegar ég hins vegar kom á sama stað í febrúar 2017 gat að líta aðra og óhugnanlegri mynd. Gamli borgarhlutinn hafði nú verið jafnaður við jörðu í orðsins fyllstu merkingu. Með jarðýtum hafði verið séð til þess að engar minjar um sögufræga fortíð voru lengur til staðar. Fólkið sem verið hafði fullt bjartsýni þremur árum áður var nú dapurt og beygt en þó ekki bugað.   

Í för með mannréttindafólki

Að þessu sinni kom ég til Diyarbakir í óþökk tyrkneskra stjórnvalda.
Ég var þá í alþjóðlegri sendinefnd stjórnmálamanna, blaðamanna, rithöfunda og mannréttindabaráttufólks og vorum við að kynna okkur stöðu mannréttinda á þessum slóðum. Við vorum vöruð við því að við gætum komist í hættu og vestræn tryggingafélög neituðu að tryggja okkur. Einu skiptin sem við urðum vör við einhverja ógn var frá hendi tyrkneska hersins og vopnaðara sveita á hans vegum!
Í þessari ferð hittum við fjöldann allan af fólki sem greindi frá grimmilegum mannréttindabrotum, drápum, limlestingum og nauðgunum og rímaði það vel við það sem við áður höfðum lesið í skýrslum mannréttindasamtaka á borð við Amnesty International svo og í skýrslum Evrópuráðsins sem á þessum tíma sýndu fram á að hálf milljón manna væri á faraldsfæti á flótta undan ofbeldi hersins og vígasveita á hans vegum.

Parísardómstóllinn

Í mars á síðasta ári sótti ég síðan þinghald mannréttindadómstólsins í París sem starfað hefur frá sjöunda áratug síðustu aldar og hefur verið kenndur við heimspekingana Bertrand Russel og Jean-Paul Sartre. Þessi mannréttindadómstóll, sem stendur utan hins alþjóðlega stofnanakerfis, er engu að síður rekinn á strangfaglegum forsendum með vitnaleiðslum og síðan dómurum úr fremstu röð. Að þessu sinni var dómstólnum ætlað að rannsaka hvort fyrir því væru óyggjandi sannanir að tyrknesk stjórnvöld hefðu gerst sek um stríðsglæpi og mannréttindabrot gagnvart Kúrdum.
Það var áhrifaríkt að fylgjast með vitnaleiðslunum og síðar sjálfri dómuppkvaðningunni í þingsal Evrópusambandsins í Brussel tveimur mánuðum síðar þar sem enginn vafi þótti leika á að sök væri sönnuð með óyggjandi hætti.

 Segja frá reynslu sinni

Ég hét sjálfum mér því að fá einhver vitnanna til þess að koma til Íslands og segja sína sögu. Úr hefur orðið að Leyla Imret, sem hrakin var úr embætti bæjarstjóra vegna andófs gegn ríkisstjórn Erdogans og flúði síðan land í kjölfar ofbeldis og fangelsana, og Faysal Sariyildiz, blaðamaður og þingmaður, sem sat árum saman í fangelsi og hefur kynnst hrikalegum mannréttindabrotum af eigin raun, koma til landsins í vikunni og munu segja frá sinni reynslu í máli og myndum í safnahúsinu að Hverfisgötu klukkan tólf næstkomandi laugardag. Þarna verður einnig til svara Fayik Yagizay, einn helsti talsmaður Kúrda í Evrópu. Fundurinn stendur í aðeins hálfan annan tíma að hámarki. Eina sem þetta fólk biður um er að við hlustum á hvað þau hafa að segja og eru allir velkomnir.

Ein óværan tekur við af annarri

Spenna ríkir nú í Kúrdabyggðum Tyrklands en þó meira sunnan tyrknesku landamæranna að Sýrlandi. Í Kúrdabyggðum Sýrlands er nú óttast að tyrkneskur innrásarher muni enn láta sverfa að Kúrdum sem nú eru í þann veginn að hrekja ISIS-óværuna af höndum sér.
Í febrúar hertóku Tyrkir Afrin í norðvestri með tilheyrandi ofbeldi og manndrápum.
Reynslan af Tyrkjaher í ofbeldisham er ekki góð. Í Safnahúsinu á laugardag verður það sýnt í máli og myndum.