Fara í efni

Kröftugur fundur gegn hernaðarofbeli Ísraela


Á laugardag var haldinn útifundur til þess að mótmæla hernaðarofbeldi Ísraela gegn Palestínumönnum. Það var félagið Ísland-Palestína sem stóð fyrir fundinum og stýrði formaður félagsins, Sveinn Rúnar Hauksson, fundinum. Ræðumenn voru Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar.


Sveinn Rúnar Hauksson formaður félagsins Ísland-Palestína og Borgþór Kjærnested

Á fundinum var samþykkt ályktun ( sjá nánar) og Sigurður Skúlason, leikari las ljóð, þar á meðal meðfylgjandi ljóð eftir Kristján Hreinsson, skáld:

TIL SÍONISTA

Hefur þú vald til að kvelja og kúga,
krossfesta, misþyrma, sverta og þrúga?
Hefur þú vald til að lasta og ljúga,
og loforðin svíkja svo glæst?
Hefur þú vald til að sækja á svæði
sem sáttfúsir menn vilja byggja í næði?
Hefur þú vald til að berja af bræði
þann bróður sem stendur þér næst?

Hver hefur leyft þér að hefna og hata,
að hindra þá særðu sem leita að bata?
Hver hefur leyft þér með auri að ata
þann öldung sem hvergi á vörn?
Hver hefur leyft þér með vopnum að vaða
og vanvirða guðdómleik heilagra staða?
Hver hefur leyft þér að skelfa og skaða
og skjóta hin saklausu börn?

Kristján Hreinsson, skáld