Fara í efni

KRÖFTUGIR TRÚNAÐARMENN - LIFANDI VERKALÝÐSHREYFING!


Alla tíð hef ég verið talsmaður öflugrar verkalýðshreyfingar. Ég lít á hana sem einn af grunnstoðum lýðræðisþjóðfélagsins. Hún stuðlar að jafnvægi í þjóðfélaginu í þeim skilningi að hún veitir fjármagnsöflum og atvinnurekendavaldi aðhald.

Í kveðjuræðu minni hjá BSRB í október síðastliðnum sagði ég m.a.: "Við eigum að horfast í augu við það að í þjóðfélaginu ríkir togstreita - það er okkar hlutverk að toga fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart fjármagni og valdi. Það breytir því ekki að togstreitunni á jafnan að beina í eins jákvæðan og uppbyggilegan farveg og kostur er."

Hvernig gerum við það? Það gerum við fyrst og fremst með öflugri verkalýðshreyfingu; verkalýðshreyfingu sem stendur atvinnurekenda- og forstjóravaldi á sporði; er ekki trénuð stofnun heldur lifandi, lýðræðisleg og kröftug hreyfing. Slík hreyfing hefur sjálfstraust til að koma fram af yfirvegun og sanngirni. Verkalýðsstofnun án jarðtengingar er til lítils nýt. Lifandi verkalýðshreyfing getur hins vegar allt - nánast. En til að þetta gangi eftir þarf að gera allt sem hægt er til að treysta innviði hreyfingarinnar. Þar horfi ég ekki síst til trúnaðarmanna á vinnustað sem gegna lykilhlutverki við að gæta réttinda launamannsins gagnvart atvinnurekanda eða umboðsmanna hans. Einstök verkalýðsfélög hafa lagt mikla rækt við þetta starf að ónefndum Félagsmálaskóla Alþýðu sem sinnt hefur þessari fræðslu fyrir ASÍ og BSRB.

Eftir því sem kreppir að á vinnumarkaði verður hættara við því að sótt verði að réttindum launafólks. Reynslan kennir að óöryggi inni á vinnustaðnum er fylgifiskur atvinnuleysis á vinnumarkaði. "Spurning: Get ég fengið vinnu? Svar: Já, að því tilskildu að þú takir ekki þátt í starfi verkalýðsfélags!"

Meðal annars af þessum sökum er ég þeirrar skoðunar að okkur beri nú sem aldrei fyrr að styrkja fræðslu trúnaðarmanna og stuðning við þá. Með því móti nærum við grasrótina og sköpum betri gundvöll fyrir lifandi verkalýðshreyfingu.