Fara í efni

KRÖFTUG UMRÆÐA UM FJÁRHÆTTUSPIL

Spilahegð-spilafíkn 21.03.12
Spilahegð-spilafíkn 21.03.12

Í vikunni sem leið efndi Innanríkisráðuneytið til umræðu um happdrætti og fjárhættuspil í tilefni af nýútgefnu riti um könnun á spilahegðum Íslendinga. Í formála ritsins sagði ég í fyrirsögn: „Velferð spilafíkla verði okkar leiðarljós." Í þessum orðum er fólginn kjarni og inntak þeirrar vinnu sem nú fer fram á vegum Innanríkisráðuneytisins við endurskoðun á lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemi sem stuðlar að spilafíkn og er þar með háskaleg þúsundum Íslendinga.

Formálinn að ritinu fylgir hér:

Velferð spilafíkla verði okkar leiðarljós

Í langan tíma hef ég haft áhyggjur af því hve margir verða spilafíkn að bráð hér á landi, ekkert síður en í öðrum löndum, og hve illa fjárhættuspil hafa leikið margan einstaklinginn og fjöl­skylduna. Þegar ég kom til starfa í ráðuneyti dómsmála í september árið 2010 var eitt fyrsta verk mitt að fá yfirlit yfir stöðu happdrætta og fjárhættu­spila, sem spanna allvítt svið.

Því fer fjarri að rétt sé að setja undir sama hatt happ­drætti, spila­kassa, Lottó og spilavíti á Netinu. Bæði er þarna um að ræða gerólík form og hvert spilaform um sig er auk þess hægt að starfrækja samkvæmt mismun­andi reglum. Þannig eru spila­kassar mis­áreitnir við „viðskiptavininn". Sumir kassar eru samtengdir og bjóða gull og græna skóga, jafn­vel heilar gullnámur, og halda því óspart að fólki hve mikill gróði getur verið á næsta leiti - ef aðeins „þú spilar örlítið lengur"

Ágengasta spilaformið í seinni tíð eru svo fjárhættuspil á Netinu sem soga þegar til sín milljarða í dýrmætum gjaldeyri og eyðileggja enn dýrmætari líf þeirra einstak­linga sem ánetjast þessum vágesti. Ef það væri svo einfalt að leggja blátt bann við allri þessari starfsemi eins og hún leggur sig væri ekki vandlifað. Að mínu mati er hvorki nauðsyn­legt né rétt að banna alla starfsemi sem flokka má undir spila­starfsemi. Þannig hef ég alltaf litið á hin hefðbundnu happdrætti DAS, SÍBS og Háskóla Íslands sem virðingar­verðar leiðir sem farnar hafa verið um áratugaskeið til að styrkja sjómenn á ævikvöld­inu, berklasjúklinga og síðar aðra sjúklinga á Reykja­lundi og víðar og síðan hvað Háskólahappdrættið varðar, menntastarf við Háskóla Íslands.

Reyndar er það svo að þegar á heildina er litið nýtur sú starfsemi virðingar sem rekin er með peningum úr happdrættum og spilakössum og er samfélaginu mikilvæg. Þar nefni ég menntun, fórnfúst en kostnaðarsamt björgunarstarf á vegum Landsbjargar og Rauða krossins, að ógleymdu lækninga- og aðhlynningarstarfi SÁÁ.

Einmitt vegna þessa hef ég oft orðið þess var þegar þessi mál eru rædd að margir fyrtast við og leggja umræðu, sem gengur út á að takmarka fjárhættuspil, að jöfnu við aðför að þessum stofnunum og þjóðþrifastarfi á þeirra vegum. Auðvitað er verk­efnið að finna þessum aðilum fjármögnun sem dugir ef - eða öllu heldur þegar - dregið verður úr fjárstreymi til þeirra úr spilakössum, sem er í verulegum mæli komið frá fólki sem ánetjast hefur spilafíkn og er því ekki sjálfrátt gerða sinna.

Okkur er ekki sæmandi annað en að gera hagsmuni þess fólks, sem orðið hefur spilafíkn að bráð, að leiðarljósi við endurskoðun á lögum og reglugerðum sem gilda um þessa starfsemi. Hún er nú í fullum gangi og vonast ég til að með haustinu sjáum við til lands hvað hana snertir.

Hér er birt könnun sem gerð var á vegum innanríkisráðuneytisins. Niðurstöður hennar eru um margt athyglisverðar. Þar staðnæmist ég einkum við aukið umfang fjárhættu­spils á Netinu og einnig við þann mikla fjölda fólks sem haldinn er spila­fíkn. Sjálfur hef ég alltaf haft efasemdir um að kannanir af þessu tagi fái greint alla raunverulega spila­fíkla, einfaldlega vegna þess að þeir bera böl sitt í hljóði. Tölurnar kunna því af þessum sökum að vera lægri eins og þær birtast okkur í könnunum en þær eru í sjálfum veru­leikanum.

En jafnvel þótt fyrirvarar af þessu tagi væru engir og litið á kannanir sem spegil á raunveruleikann þá væri hann samt ógnvekjandi. Ef rétt er að fjögur til sjö þúsund manns séu annaðhvort háð spilafíkn eða á mörkum þess, þá eru fórnarlömbin of mörg til að við herðum ekki okkar róður þeim til varnar.

Fyrir hönd innanríkisráðuneytisins vil ég þakka happdrættisnefnd ráðuneytisins fyrir mikilvægt framlag sitt og Daníel Þór Ólasyni, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands, fyrir fagmannlega vinnu sem birtist í þessu riti.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra

Frásögn af vef Innaríkisráðuneytis: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28005