Fara í efni

Kraftaverkamenn á hverju strái

Það er gaman í fjármálabransanum nú um stundir. Kraftaverkamenn eru þar á hverju strái. Vígreifir birtast okkur ungir karlar og konur sem hafa uppgötvað hjólið. Það er þeim að þakka að vextir eru komnir niður í nánast ekki neitt – 4,2%, að ógleymdri verðbólgunni því um er að ræða vísitölubundin lán.
En það eru ekki bara bankafólkið sem hælist um. Það gera framsóknarmenn líka og heldur betur. Allt er þetta þeim að þakka – segja þeir. Framsóknarflokkurinn telur nefnilega að vaxtalækkunin sé fyrir hans tilstilli! Áform um 90% lán í húsnæðiskerfinu hafi komið skriðunni af stað.
En gæti skýringin verið einfaldari? Er ekki til í dæminu að tilboð bankanna sé angi af stærra plani um að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef? Það er jú yfirlýst stefna Samtaka banka og fjármálafyrirtækja að láta leggja sjóðinn niður.
Á undanförnum árum hefur það öðru hvoru verið ámálgað við lífeyrissjóðina að þeir kæmu inn í púkkið með bönkunum til að ná íbúðakaupendum frá Íbúðalánasjóði. Síðan gerist það í vetur að fjármálafyrirtækin setja traust sitt á ESA dómstólinn, að hann úrskurði að Íbúðalánasjóður standist ekki samkeppnisreglur EES. En viti menn, aldrei þessu vant er úrskurður ESA ekki markaðssinnum í hag. Þess vegna var tekinn nýr póll í hæðina. Hafin var djörf sókn gegn Íbúðalánasjóði með gylliboðum. Þótt markmiðin hafi verið vafasöm eru boð um hagstæð kjör að sjálfsögðu fagnaðarefni. Hitt mega menn vita, að tækist að eyðileggja Íbúðalánasjóð væri þess skammt að bíða að risarnir á markaði skiptu kúnnunum á milli sín og hefðu síðan notalegt samráð sín í milli um vaxtastigið, líkt og gerst hefur í bensín- og olíusölu, tryggingum og víðar.

En varðandi hjólið og fólkið sem er að finna það upp var sú tíðin að 4,2% vextir ofan á vístölubindingu þóttu háir vextir. Þannig tók ég mín lán í byrjun níunda áratugarins með 2,25% vöxtum ofan á vísitölu!