Fara í efni

KRAFAN UM RÉTTTRÚNAÐ


Síðastliðinn vetur skrifaði ég grein í tímarit hægri manna, Þjóðmál, um bók Styrmis Gunnarssonar um hrunið. Bókin fannst mér um margt ágæt og í grein minni sá ég ljósan blett á Styrmi, og viti menn, líka Davíð Oddssyni, ekki bara dökka. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Safnaðarmeðlimur hafði syndgað. VG maður hafði sagt eitthvað gott um „náhirðina"!
Þetta þótti afleitt. Þarna var talað út úr ritúali, út úr því sem leyfist í heimi rétttrúnaðar. Þarna sannaðist að sumt fólk missir fótanna þegar sagt er eitthvað sæmilegt um fólk í „hinum söfnuðinum". Þá er eins og menn viti ekki hvaðan á þá stendur veðrið; ekki lengur fast land undir fótum; ekki lengur hreinar línur; ekki lengur allir góðir í mínu liði, allir illir í hinu liðinu.

Trúarhiti en lítið sjálfstraust

En mikið hlýtur sannfæringin að vera veik hjá fólki sem svona hugsar. Trúarhitinn vissulega til staðar, en sjálfstraustið í lágmarki! Hjá fólki sem stólar á stofnun, flokkinn sinn, en ekki hugsjón, eða sameiginlega stefnu að fylkja um, þá verður flokkshollusta mælikvarðinn á samstöðuna en ekki stuðningur við stefnumarkmið. Á þeim forsendum leiðrétta þeir kúrsinn „vinstri sinnuðu" sérfræðingarnir í háskólunum og stöku „verðlaunablaðamenn"  eru þarna úti í sömu erindagjörðum.
Um páskahelgina fylgdist ég með bloggskrifum á vefnum. Einn þeirra sem skrifa mikið, maður sem ég virði, Einar Steingrímsson, hrekkur í kút yfir að ég taki upp hanskann fyrir formann Framsóknarflokksins sem haft hefur í hælunum Fréttatímann og fleiri fjölmiðla, sem telja það vera mál málanna hvort hann hafi verið að mennta sig við erlendar háskólastofnanir eða bara að horfa í gaupnir sér öll sín námsár. Ég hafði leyft mér að fullyrða að umræddur einstaklingur hefði sýnt í verki að hann hafi aflað mikilvægrar þekkingar og komið henni á framafæri!

Morgunblaðsskríbent um  öfgar og skort á yfirvegun

Í annað. Blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar grein, þar sem fundið er út að öll þau sem sigla á móti straumnum í pólitík séu öfgafólk. Hin sem þýðast valdið eru kennd við hófsemi. Þannig finnst Kolbrúnu Bergþórsdóttur hún Sif Friðleifsdóittir (sem samþykkti einkavæðingu bankanna og Kárahnjúka og kemur nú fram í fjölmiðlum til að hneykslast yfir efahyggju minni og Jóns Bjarnasonar) vera yfirveguð miðjumanneskja, en Ásmundur Einar Daðason, þingmaðurinn ungi, formaður Heimssýnar, vera  öfgamaður. Hvers vegna? Jú, hann gekk úr þingflokki VG, sem honum þótti hafa svikið loforð um að halda okkur fyrir utan Evrópusambandið. (Engu slíku lofaði ég og að sjálfsögðu var ég ekki sáttur við útgöngu Ásmundar Einars og harmaði hana, en það er önnur saga).

Vill Smugan verða Pravda?

Dapurlegur er síðan ritstjórnarpistill Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur á Smugunni, sem mér skilst að vilji vera málgagn róttækrar vinstristefnu. Leiðarinn hefði verið flottur í Prövdu. Þar var bannað að tala vel um þá sem urðu viðskila við hina "réttu" línu. Það sem Þóra Kristín er ekki búin að átta sig á, er að krafan til rétttrúnaðar heyrði til annarri öld: Öldinni sem var. Pravda er hætt að koma út. Eða hvað?
http://www.smugan.is/fra-ritstjorn/allt/thora-kristin-asgeirsdottir/nr/5763