Fara í efni

KONUR OG KARLAR Í PRÓFKJÖRUM

Bylgjan í bítið 2 rétt
Bylgjan í bítið 2 rétt

Konur og karlar í prófkjörum og útkoma í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins bar á góma í umræðu okkar Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Ég kvaðst orðinn þreyttur á mannfyrirlitningartali í garð karla einsog við urðum vitni að í sjónvarpsþætti í gær. Þar var talað um niðurstöðu prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í gær  - þar sem karlar hlutu meira brautargengi en konur - á þann veg að það þýddi ekki að bjóða kjósendum upp á „gamalt brauð" og „staðna mjólk". Hvers vegna eiga karlmenn sem fengu góða kosningu í prófkjöri að þurfa að sitja undir slíkum svívirðingum? Mér er spurn hvort þetta sé til þess fallið að styrkja jafnréttisbaráttu. Ég held þvert á móti að svona tal grafi undan henni.

Svona á hvorki að tala um karla né konur. Það er hins vegar allt önnur saga að tryggja á sem jafnasta aðkomu kynjanna að stjórn sveitarfélaga og ríkisins. Þar þokaðist fram á við undir lok síðustu aldar og er enn að gerast. Það gerðist þó aðeins vegna baráttu - aðallega kvenna - sem töldu brýnt að bæta þarna úr.

Ég er ekki viss um að eins mikill munur sé á áherslum karla og kvenna í stjórnmálum og margir vilja vera láta; mér hafa sýnst þessar áherslur fyrst og fremst vera einstaklingsbundnar óháð kyni.

Ég er hins vegar sannfærður um að mikilvægt er - mér liggur við að segja lífsnauðsynlegt  - bæði fyrir drengi og stúlkur að sjá í reynd þá þjóðfélagsmynd fyrir sér í stjórn sveitarfélaga og ríkisins að hlutur kynjanna sé sem jafnastur. Þessi mynd hefur síðan áhrif á stöðu kynjanna á vinnustað og í lífinu almennt. Sem dæmi um þetta má nefna að kosning Vígdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands á sínum tíma, hafi haft veruleg áhrif á sjálfsmynd stúlkna - og þá væntanlega einnig drengja.

Í þættinum í morgun var einnig rætt um hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar og skuldavandann. 
Hér má hlusta á þáttinn:
http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=22487