Fara í efni

Konan í Hafnarfirði

Fréttamenn Kastljóss fóru silkihönskum um Davíð Oddsson forsætisráðherra að loknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Lengi vel spjallaði forsætisráðherra um Íraksmálið og bar sig mannalega. Íslendingar væru þjóð sem stæði í fæturna. Eins og utanríkisráðherrann sagði hann að Saddam Hussein hefði drepið hálfa milljón barna og stofnað til stríðs við Íran, þar sem ein milljón hefði fallið.

Staðreyndin er sú að börnin létust af völdum viðskiptabanns sem sett var á Írak að kröfu Bandaríkjastjórnar og hefur verið ásteitingarsteinn um heim allan í rúman áratug, meðal annars margoft verið tekið upp á Alþingi Íslendinga. Varðandi stríðið við Íran, þá var það rækilega stutt af Bandaríkjamönnum og Bretum enda sáu þeir Saddam Hussein fyrir vopnunum (einnig efnavopnunum) til að beita gegn hermönnum klerkastjórnarinnar í Teheran, sem þá var komin upp á kant við Bandaríkjamenn.

Fyrir Davíð Oddssyni er þetta allt mjög einfalt: Annað hvort styðja menn Breta og Bandaríkjamenn eða Saddam Hussein. Lengra nær ímyndunarafl forsætisráðherrans ekki. Sú hugmynd að Íslendingar gætu haft sjálfstæða skoðun virðist honum framandi. Sannast sagna saknaði ég þess að fréttamenn Kastljóssins spyrðu forsætisráðherrann svolítið út úr. Þess vegna gladdist ég mjög að kona nokkur í Hafnarfirði hafði skrifað í blað um þróun skattleysimarka. Í skrifum þessarar konu fundu fréttamenn Sjónvarpsis tilefni til að spyrja forsætisráðherrann um það efni. Ég er viss um að margir sjónvarpsáhorfendur eru konunni úr Hafnarfirði þakklátir fyrir að veita fréttamönnum Sjónvarps skjól á þennan hátt.