Fara í efni

KOMUGJÖLDUM BREYTT


Í hjarta mínu fagnaði ég því að heyra að ákveðið hefði verið að fella niður komugjöld barna 18 ára og yngri á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. Mér fannst líka gott að heyra heilbrigðisráðherrann segja að þetta væri liður í því að efla þjónustu við börn og ungmenni. Í frétt RÚV ohf um þetta efni segir „Börn yngri en 18 ára hafa hingað til þurft að greiða 350 krónur fyrir að koma á heilsugæslustöð á dagvinnutíma og 800 krónur fyrir að koma utan dagvinnutíma. Börn hafa svo þurft að greiða tæplega 1500 krónur fyrir fyrstu komu á slysa- og bráðamóttöku Landsspítalans. Þessi gjöld falla niður frá og með 1. janúar."

Þessari gjaldtöku var ákaft mótmælt þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks kom henni á í byrjun tíunda áratugarins og kviknaði sú von í brjósti mér að nú ætti að vinda ofan af þessari gjaldtöku enda fyrirsögn fréttarinnar: Komugjöld barna afnumin.
En síðan segir: Ekki stendur til að fella niður gjöld hjá fleiri hópum að sögn Guðlaugs Þórs. Almennir sjúklingar greiða 700 krónur fyrir að koma á heilsugæslustöð í dagvinnu en 1750 krónur utan dagvinnu. Það kostar svo 3700 krónur að koma á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans. Þau gjöld verða hins vegar hækkuð. Guðlaugur segir þau gjöld vera hófleg samanborið við nágrannalöndin. Kostnaður ríkisins vegna þessa verður sá sami og áður. Guðlaugur Þór segir að hins vegar sér erfitt að reikna út hvað þetta þýði fyrir venjulega fjölskyldu."Með öðrum orðum, fréttin fjallar í reynd um breytta kostnaðarskiptingu innan rukkunarkerfis heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Börn og unglingar koma til með að fá ókeypis, það er gott. En það eru hins vegar aðrir sjúklingar sem verða látnir borga brúsann! Ekki er um að ræða breytingu innan skattakerfisins, nei breytingarnar eru takmarkaðar við sjúklingahópinn, tilfærslan er innan hans! Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, þykir það vera ósköp hóflegt  að borga 3700 krónur sem aðgangseyri að slysa- og bráðamóttöku og ekkert að því að hækka þau gjöld. Einu sinni var þetta ókeypis. Er það ekki þannig sem við viljum hafa það?