Fara í efni

KOLEFNISSPOR Í FINNAFIRÐI?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.04.19.
Ég veit að það er ekki til vinsælda fallið og þá allra síst á fjölmiðlunum að líkja þeim við dauðyfli. En hvað á að kalla þá fjölmiðla sem hafa ekki kafað í þessi Finnafjarðaráform? 

Sveitarstjórnir nyrðra – í Vopnafjarðarhreppi og Langanesbyggð - segja að ekki sé hægt að horfa fram hjá “atvinnutækifærinu” sem felist í því að gera Finnafjörð að stórskipahöfn, sjálfri siglingamiðstöð norðurhvels jarðarkringlunnar. Hvorki meira né minna!

En atvinnutækifæri fyrir hverja? Varla Íslendinga því augljóslega þyrfti að flytja inn þúsundir erlendra starfsmanna til að þjóna í stórskipahöfninni.
Ég hjó eftir því að sveitarstjórinn í Langanesbyggð sagði að þetta gæti orðið högg fyrir náttúruna en svo kom einnig í ljós að þetta myndi þjóna landeigendum vel. Þá væri alla vega til nokkurs unnið.

Fram hefur komið að ríkisstjórnin styður þessi áform, veitti þannig í haust átján milljónum króna í “verkefnastyrk” vegna undirbúnbingsvinnunnar. En það er á vegum stórskipahafnarinnar í Bremen í Norður-Þýskalandi sem stóru milljónunum er spýtt inn. Og fljótlega kemur að því að ekki verður auðveldlega aftur snúið vilji Bremenports halda áfram með þetta “risavaxna langtímaverkefni” sem svo er lýst. Þá ráðum við ekki lengur. Eða hvern langar í skaðabótastríð við fjárfestana sem forstjóri Bremenports segist “bjartsýnn” á að fáist að verkefninu fyrir árslok?

Nennir annars einhver að hugsa um þetta? Alþingi er sem kunnugt er upptekið af eigin sálarlífi sem stendur og ríkisstjórnin gerir það greinilega ekki. Þó er það hún sem fyrir okkar hönd þarf að sjá fyrir grunnþjónustunni þegar krafta Vopnafjarðarhrepps og Langanesbyggðar þrýtur.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um nauðsyn þess að gera samning við sauðfjárbændur um kolefnissporið sem þeir stigi í óþökk Móður Jarðar með því að rollurnar þeirra hlaupi um haga eins og þær hafa gert í þúsund ár.
En er hitt í lagi, stærstu skip heims inn í landsteinana að þjóna kapítalismanum í BNA og ESB eða alræðinu í Kína?

Ég nefni Kínverja því þeir munu eiga vingott við Bremerhaven eins og fleiri hafnir í Evrópu og víðar um álfur, ýmist eiga þær eða stýra. Varla munu þeir senda seglskip norður í Finnafjörð? Skyldu það ekki frekar vera olíuknúin skip eða kolakynt eins og hin sporþunga verksmiðja á Bakka? Svo er náttúrlega til í dæminu að þau væru kjarnokuknúin.  Spyr sá sem ekki veit. En er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum að gera – að vita?  
Því þessi spurning: Þarf ekki að ræða á landsvísu þegar Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð bjóðast til að leysa atvinnuvanda á heimsvísu?

Þetta mál er ekki nýtt af nálinni. Það hefur lengi verið í bígerð. Nú er hins vegar búið að skrifa undir rándýra aðgerðaáætlun. Hvers vegna er þetta “risavaxna langtímaverkefni” svona langt gengið nánast umræðulaust?

Stundum er sagt að orð séu til alls fyrst. En hvað gerum við þegar engin orð koma? Alla vega ekki af hálfu fjölmiðlanna, fjórða valdsins, sem þeir stundum nefna sjálfa sig, og eru þá nokkuð drjúgir með sig.  
En ég ætla einmitt að leyfa mér að spyrja um fjórða valdið og þroskaferil þess.
Hvenær skyldi það taka tennur?