Fara í efni

Knúið á um réttinda- og kjarabætur

Birtist í Mbl
Í upphafi árs voru öll teikn á lofti um að árið yrði íslensku efnahagslífi gjöfult; ytri skilyrði jákvæð, aflabrögð með eindæmum góð, verðlag á afurðum þjóðarinnar hagstætt og í samræmi við þetta voru spár um hagvöxt. Nú hefur komið á daginn að hagvöxtur hefur reynst jafnvel enn meiri en spáð var í upphafi ársins eða 4,5% og er það talsvert umfram efnahagsvöxtinn í flestum grannlöndum okkar.

Góðærið til allra

Í ársbyrjun hafði hafist undirbúningur kjarasamninga og ekki að undra að við þessi hagstæðu skilyrði væri málflutningur samtaka launafólks fyrst og fremst á þá leið að tryggja hlutdeild launafólks í efnahagsuppsveiflunni, góðærið til allra varð kjörorð verkalýðshreyfingarinnar.

Í kjarasamningunum var lagt höfuðkapp á að hækka kauptaxta auk þess sem leiða var leitað til sð treysta kaupmátt. Um mitt ár var sett á laggirnar verðlagseftirlit í samstarfi samtaka launafólks og Neytendasamakanna og hefur það starfað af krafti síðan. Þá lögðu samtök launafólks mikið kapp á að hafa áhrif á ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Ekki náðist samkomulag í jaðarskattanefnd ríkisstjórnarinnar þar sem verkalýðshreyfingin átti aðild og varð niðurstaðan sú að ríkisstjórinin boðaði einhliða skattabreytingar sem færðu hinum tekjuhærri fleiri skattkrónur í afslátt en hinum tekjulægri. Þetta var í samræmi við fyrri áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum og vegur þar þyngst fjármagnstekjuskatturinn sem byggði á því að smásparendum var þröngvað til að niðurgreiða skattafslátt til umsvifamikilla fjármagnseigenda og fjárfesta.

Enda þótt samtök launafólks væru gagnrýnin á skattastefnu ríkisstjórnarinnar og litu almennt ekki á áform hennar um almenna tekjuskattslækkun sem hluta kjarasamninga var það engu að síður tekið óstinnt upp þegar ríkisstjórnin ætlaði að hætta við hluta áður boðaðra skattabreytinga. Hörð viðbrgögð við stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar ber öðru fremur að líta á sem kröfu til stjórnmálamanna að standa við gefin fyrirheit og hreyfa ekki við forsendum sem launafólki hefur verið sagt að það geti gengið út frá sem vísum.

Samneyslan verði efld með réttlátari skattheimtu

Staðreyndin er svo aftur sú að innan samtaka launafólks hefur verið varað við almennum skattalækkunum sem leið til kjarabóta. Samtök launafólks hafa viljað að byrðunum væri réttlátar skipt en þau hafa jafnframt lagt áherslu á að skattbreytingar verði ekki til að svelta almannasjóði sem fjármagna velferðarþjónustuna. Fjárþröng þar kemur launafólki í koll, rýrir lífskjörin og grefur undan jöfnuði í þjóðfélaginu. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að skatttekjur hins opinbera eru lágar hér á landi eða um 31% af vergri landsframleiðslu á móti 41% á Norðurlöndum og 47,8% í Evrópuhluta OECD. Almennur tekjuskattur er mun lægri hér en í þessum ríkjum en mest sláandi er munurinn þegar kemur að skattlagningu fyrirtækja. Þannig eru launa- og tryggingagjöld hér á landi 2,5% af vergri landsframleiðslu á móti 8,6% á Norðurlöndunum og 14% í Evrópuríkjum OECD, og tekjuskattur fyrirtækja er hér 1% af vergri landsframleiðslu, 2,5% á Norðurlöndum og 3,4% í Evrópuríkjum OECD. Á undanförnum árum hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á skattkerfinu á þá lund að létt hefur verið sköttum af fyrirtækjum og byrðarnar færðar yfir á launafólk. Í ljósi alls þessa hlýtur það að verða verkefni samtaka launafólks að beita sér fyrir breyttum áherslum í skattkerfinu launafólki í hag í stað þess að draga úr skattheimtu og þar með tekjustreymi til almannaþarfa.

Krafa um félagslega samninga og opið kerfi

Ekki eru öll kurl komin til grafar enn í frágangi kjarasamninga hjá hinu opinbera og er mikilvægt að samtökum launafólks takist að stuðla að því að samningar innan einstakra stofnana verði á félagslegum grunni og samkvæmt skýrum umsömdum reglum. Því miður bendir margt til þess að framundan sé löng og ströng barátta hvað þetta varðar því við samningaborðið hefur launafólk alltof víða mætt þröngsýnum viðhorfum forstöðumanna sem virðast staðráðnir í að koma á launaleynd. Þessi afstaða þarf engum að koma á óvart því launaleyndin er forsenda forstjóravaldsins. Hið opna kerfi þar sem ekkert er falið er hins vegar forsenda félagslegra samninga og þess að unnt verði að draga úr launamisrétti og þar með launamisrétti kynjanna.

Það er ljóst að baráttan fyrir opnu samfélagi verður mikilvægur þáttur í réttindabaráttu verkalýðshreyfingarinnar á komandi árum og hér erum við að fást við einn anga þeirrar baráttu. Þegar gætir aukinnar tilhneigingar til að loka á upplýsingar sem hafa verið öllum opnar og ein ástæðan fyrir ákafa margra forsvarsmanna stofnana í almannaeign að þær verði gerðar að hlutafélgögum er einmitt sú að þannig komast þeir úr sviðsljósiu, undan kastljósi almennings með kjör sín og hlunnindi. Á fínu máli heitir þetta að komast í eðlilegt rekstrarumhverfi.

Mikilvægir áfangar ­ lífeyrsimál

Á árinu hefur barátta launafólks skilað mikilvægum áfangasigrum. Í fyrsta lagi tókst að hnekkja mjög alvarlegri aðför að félagslegum lífeyrissjóðum en fjármagnsfyrirtæki sóttu hart að fá í sínar hendur lífeyrissparnað launafólks. Enda þótt nýsamþykkt rammalöggjöf um lífeyrissparnað beri þess vott að um málamiðlun er að ræða er hér tvímælalaust um mikilvæga lagasetningu að ræða. Og það sem meira er ríkisstjórn og Alþingi viðurkenndu í verki að löggjöf um lífeyrisréttindi verður ekki sett nema með samþykki samtaka launafólks. Þetta er eðlilegt því lífeyrisréttindi snerta kjör og réttindi sem launafólk hefur barist fyrir og bundið í samninga en auk þess er mjög mikilvægt að festa sé í lífeyrismálum þannig að viðræður fari fram og samkomulag gert áður en ráðist er í breytingar. Enda þótt mikilvægir áfangar hafi náðst í lífeyrismálum á undanförnum tveimur árum eru enn ófrágengin mál á þessu sviði sem bíða komandi árs og er þar átt við lífeyrismál starfsmanna margra sveitarfélaga sem reka sjálfstæða sjóði en framtíðarskipan þeirra er enn ófrágengin.

Fæðingarorlof feðra og stytting vinnutíma

Framfaraspor var stigið með því að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Enda þótt aðeins sé um að ræða hálfan mánuð er þetta mikilvægur áfangi og ber að fagna honum. Á árinu var stigið annað skref sem mun hafa miklar breytingar í för með sér þegar fram líða stundir og er þar vísað til samkomulags sem verkalýðshreyfingin gerði við atvinnurekendur um styttingu vinnutíma. Þetta er angi af evrópskri samhæfingu en mun sennilega hafa meiri áhrif hér á landi en víðast hvar annars staðar því í íslensku þjóðfélagi hefur vinnutími verið óhóflegri en víðast hvar annars staðar. Það er fjölskylduvænt að stytta vinnutímann og þegar saman fer aukin ábyrgð feðra í barnauppeldi með sjálfstæðu fæðingarorlofi þeirra og stytting vinnutímans þá mun draga úr kynjamisrétti á vinnumarkaði.

Almannatryggingar og landbúnaður

Af öðrum áföngum ber að fagna að við þessi áramót steig ríkisstjórnin það mikilvæga skref að lögfesta að bætur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun en aldrei verða lakari en almenn verðlagsþróun. Þetta þýðir að öryrkjar og lífeyrisþegar munu ekki verða fyrir kjaraskerðingu ef kaupmáttur launa rýrnar. Hins vegar verður áfram verk að vinna fyrir samtök launafólks, aldraðra og öryrkja að halda stjórnvöldum við efnið og tryggja þessum hópum hlutdeild í auknum kaupmætti launataxtans þegar um slíkt er að ræða. Frá því ríkisstjórnin ákvað að taka bætur almannatrygginga úr sambandi við þróun launataxta hafa fyrrnefnd samtök lagt áherslu á að hlutur aldraðra og öryrkja verði ekki fyrir borð borinn. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú sýna að dropinn holar steininn en meira þarf ef duga skal.

Á árinu hafa fulltrúar launafólks víða komið við sögu og er ástæða til að lýsa ánægju yfir því að enn skuli hafa náðst víðtækt samkomulag um breytingar á sviði landbúnaðarmála, að þessu sinni mjólkurframleiðslu, og er það sigur fyrir þá sem vilja að kerfisbreytingar séu gerðar á yfirvegaðan og skipulegan hátt í stað þess að láta duttlunga markaðarins stýra för með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í lífskjörum fjölda fólks.

Réttindi atvinnulausra verði tryggð

Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir upppsveifluna í efnahagslífinu ganga enn á fimmta þúsund Íslendingar atvinnulausir. Í nýjum lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir er að finna þætti til skerðingar á kjörum atvinnulausra sem samtök launafólks mótmæltu harðlega. Hins vegar er í þessum lagabálkum einnig að finna ýmsa réttarbót sem fulltrúar launafólks höfðu beitt sér fyrir við lagasmíðina. Mikilvægt er að þannig verði búið um hnúta að það sem til framfara horfir í þessum lögum verði meira en orð á blaði. Fyrirsjáanlegt er að atvinnulaust fólk kunni að þurfa á aðstoð og réttindagæslu að halda í nýju lagaumhverfi og er brýnt að samtök launafólks efli tengslin við atvinnulausa félagsmenn sína og búi sig undir að veita þeim aðstoð í erfiðum álitamálum sem upp kunna að koma í tengslum við framkvæmd laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Öll félög og samtök launafólks þurfa að hyggja að þeim gerbreyttu forsendum sem nú eru uppi í kjölfar nýrra laga. Ný lög kalla á ný vinnubrögð.

Samtök launafólks og framtíðin

Á árinu hefur nokkuð verið rætt um mikilvægi þess að endurmeta starf samtaka launafólks. Víða innan hreyfingar launafólks hafa komið fram hugmyndir og tillögur um að teknar verði upp viðræður um leiðir til að styrkja verkalýðsbaráttuna og gera skipulagða hreyfingu launafólks að enn kröftugri baráttufylkingu en hún er nú. Meðal annars hefur þeirri hugmynd verið hreyft að undirbúið verði eins konar stjórnlagaþing samtaka launafólks þar sem skipulag hreyfingarinnar allrar yrði endurmetið frá rótum. Mikilvægt er að menn komi að þessari umræðu án fordóma í farteskinu og með það eitt að leiðarljósi að efla samtakamáttinn. Það er margt sem gefur ærið tilefni fyrir samtök launafólks að hugsa sinn gang. Í því sambandi er mikilvægast að hafa í huga að samfélagið þarf á sterkri verkalýðshreyfingu að halda til þess að stuðla að heilbrigðu og réttlátu þjóðfélagi; verkalýðshreyfingu sem er sjálfstæð og sjálfri sér samkvæm; verkalýðshreyfingu sem er óháð stjórnmálaflokkum en kappkostar að stjórnmálaflokkar reisi stefnu sína og afstöðu á viðhorfum sem frá hreyfingu launafólks eru runnin; verkalýðshreyfingu sem samfylkir með þeim hópum í þjóðfélaginu sem beita sér fyrir jöfnuði og félagslegu réttlæti. Það er þörf á slíkri verkalýðshreyfingu. Og slík hreyfing á framtíðina fyrir sér.